Skjálftavirknin hoppar á milli svæða

Minni skjálftavirkni er á svæðinu vestan við Kleifarvatn þó skjálfti …
Minni skjálftavirkni er á svæðinu vestan við Kleifarvatn þó skjálfti upp á 2,6 hafi mælst í morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Skjálftavirkni róaðist mikið á Reykjanesi í nótt. Hins vegar mældist skjálfti upp á 2,6 nú um klukkan 9. Einar Bessi Gestsson náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að erfitt að meta hvort tímabili skjálftahrinanna vestan við Kleifarvatn sé við það að ljúka en menn horfa nú til Brennisteinsfjalla og hvort skjálftavirknin fari þangað. Sagan beri það með sér. 

Fólk hafi áfram varann á

„Skjálftarnir voru mun færri í nótt en dagana á undan. Þótt það sé rólegra tímabil í hrinunni þá er erfitt að segja hvort hrinan sé að fjara út eða hvort hún muni aftur aukast tímabundið. Því langar okkur að beina því til fólks að hafa varann á ef það er á ferðinni á svæðinu og yfirfara viðbúnað sinn við jarðskjálftum,“ segir Einar Bessi. 

Horft er með áhuga til Brennisteinsfjalla. Hvort næsta skjálftahrina muni …
Horft er með áhuga til Brennisteinsfjalla. Hvort næsta skjálftahrina muni mælast þar. Rax / Ragnar Axelsson

Að sögn hans er mynstrið fremur hefðbundið eftir stóran skjálfta líkan þeim sem varð á þriðjudaginn. Þá segir hann þó ekki sé hægt að útiloka annan stóran skjálfta á Reykjanesinu. „Þetta hefur hoppað á milli svæða í ár. Byrjaði við Þorbjörn og Grindavík áður en það fór út á Reykjanestána og svo við Fagradalsfellið áður en þetta fannst núna vestan við Kleifarvatn. Í ljósi sögunnar eru menn nú að velta því fyrir sér hvort að næst muni skjálftavirkni mælast við Brennisteinsfjöll sem eru nær höfuðborgarsvæðinu,“ segir Einar Bessi en Brennisteinsfjöll eru í um 15 kílómetra fjarlægð  frá Hafnarfirði sem er næsta þéttbýlið á höfuðborgarsvæðinu. Til samanburðar er Núphlíðarháls þar sem stóri skjálftinn á þriðjudag átti upptök sín í tæplega 18 kílómetra fjarlægt frá Hafnarfirði.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert