Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð hefur verið virkjuð að hluta vegna stórs skjálfta á Reykjanesskaga sem fannst vel á Suðurnesjum, á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Þetta segir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
„Við höfum fengið fregnir af því að myndir og hlutir úr hillum hafi dottið niður. Við höfum ekki fengið neinar tilkynningar um skemmdir eða slys á fólki,“ segir Jóhann í samtali við mbl.is.
Jóhann bendir á að upplýsingar um jarðskjálfta og viðbrögð við þeim má finna á vef almannavarna. Hér má t.a.m. lesa um varnir og viðbúnað, hér má lesa um viðbrögð og meira hér.
Lögreglumenn munu fara um svæðið, meðal annars í Krýsuvík, til að kanna áhrif skjálftans.
Hvað þýðir það að búið sé að virkja samhæfingarmiðstöðina að hluta?
„Þá koma hér viðbragðsaðilar og samhæfa aðgerðir upp á það að athuga hvort það sé ekki allt í góðu á þeim stöðum þar sem skjálftinn fannst, til dæmis á Reykjanesinu, hér á höfuðborgarsvæðinu, á Akranesi og víðar,“ segir Jóhann.
Samhæfingarstöðin er ekki fullmönnuð vegna sóttvarnasjónarmiða, að sögn Jóhanns.
Setur það ekki stein í götu ykkar í þessum aðgerðum nú?
„Nei, það er bara ekki þörf á því. Heilt yfir virðist þetta vera rólegt. Lögreglumenn eru á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Suðurnesjum að kanna með ástand þar. Hingað til virðist þetta vera í góðu, ekkert stórvægilegt hafa gerst,“ segir Jóhann.
Almannavarnir hvetja fólk til þess að tilkynna jarðskjálfta hér. Slík skráning hjálpar til við að meta jarðskjálfta og skipuleggja viðbrögð við þeim í framtíðinni. Allar skráningar eru mikilvægar, allt frá að hafa fundið lítillega fyrir skjálftanum upp í að skrá hrun og hreyfingar á innanstokksmunum.
Yfir 50 eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfar stóra skjálftans og fer þeim fjölgandi.
Óvissustig almannavarna hefur verið í gildi á Reykjanesi vegna landriss á svæðinu síðan 26. janúar.