Ísland „lifandi tilraunastofa jarðfræðinnar“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta ár er hætt að koma manni á óvart, maður er farinn að búast við öllu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um stóran jarðskjálfta sem fannst víða um land í dag. Hún var í beinni útsendingu í viðtali við Washington Post þegar skjálftinn reið yfir. Stjórnarráðið fór ekki varhluta af skjálftanum og birtust sprungur í lofti hússins. 

„Ég var sem sagt í þessu viðtali og það hristist hér allt og lék á reiðiskjálfi, borðið og stóllinn. Ljósið fór að sveiflast hérna á bak við mig. [...]Þetta var svona óvænt byrjun [á viðtalinu]. Það er nógu stressandi að vera í viðtölum í beinni útsendingu við útlönd þar sem allt getur farið úrskeiðis þannig að þetta var svona auka,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Alltaf óþægilegt

Ertu með einhver skilaboð til þeirra sem urðu skelkaðir í skjálftanum? 

„Þetta er auðvitað alltaf óþægilegt. Ég sá haft eftir bæjarstjóra Grindavíkur að þar væri fólk orðið vant svona skjálftum því þau hafa nú verið með stanslausa skjálfta allt árið. Aldeilis held ég að við höfum í dag, alla vega hérna á suðvesturhorninu, fundið það hvernig er að búa á landi sem er lifandi tilraunastofa jarðfræðinnar svo það er mikilvægt að rifja upp hvað maður á að gera þegar jarðskjálfti kemur. Eins og ég sagði honum [Dav­id Ignatius, blaðamanni Washingt­on Post], að ég myndi kannski fara undir borð ef eitthvað meira gerðist,“ segir Katrín, létt í bragði þrátt fyrir jarðhræringarnar.

Sprungur í lofti stjórnarráðsins

Urðu einhverjar skemmdir í stjórnarráðinu?

„Einhverjar sprungur birtust í loftinu, segja þau mér, þannig að væntanlega hefur jarðskjálftinn haft sín áhrif þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert