„Álagið var stjarnfræðilegt“

Vefur Veðurstofunnar þykir kominn til ára sinna.
Vefur Veðurstofunnar þykir kominn til ára sinna.

Vefur Veðurstofunnar lá niðri í gær og fyrir vikið gátu um tíma margir ekki sótt upplýsingar um jarðskjálftann sem varð upp á 5,6 á Reykjanesi. Upplýsingar um skjálftann birtust á alþjóðlegum vefsíðum áður en þær birtust á vefsvæði Veðurstofunnar.

Árni Snorrason forstjóri Veðurstofunnar og Haukur Hauksson samskiptastjóri segja að unnið sé að því að bæta og uppfæra vefinn sem sé að vissu leyti kominn til ára sinna. 

„Álagið var stjarnfræðilegt og þarna voru tölur sem við höfum aldrei séð áður,“ segir Árni en samkvæmt upplýsingum frá Hauki samskiptastjóra heimsóttu 38 þúsund notendur vefsíðu Veðurstofunnar þegar mest lét.  

Er ekki við því að búast að vefur eins og ykkar fái á sig álagspunkta? 

„Aðal málið hjá okkur er það að kerfið virki þannig að gögnin komi inn og að menn geti greint þau. Þó vefurinn sé mikilvægt tól fyrir almenning þá er aðal atriði okkar að geta upplýst Almannavarnir. Við erum með beina línu þangað,“ segir Árni. 

„Það breytir þó ekki því að við reynum að upplýsa almenning og samfélagið eins fljótt og við getum.“

Árni Snorrason forstjóri Veðurstofunnar
Árni Snorrason forstjóri Veðurstofunnar Sigurður Bogi Sævarsson

Vonbrigði að þol vefsins dugði ekki til 

Haukur segir hins vegar að litið sé á málið alvarlegum augum innan stofnunarinnar. 

„Þetta var ágætis prófsteinn á vef - og hugbúnaðinn og við þurfum að stilla okkur af þannig að við getum þolað svona toppa. Það eru vonbrigði fyrir okkur að þol vefsins fór út fyrir þau mörk sem við höfum sett okkur,“ segir hann.

„Toppurinn í notendum sem varð í gær er sá stærsti sem við höfum mælt, en þeir verða sennilega ekki stærri, en nýtist sem gott viðmið um hvers er að vænta í þörfum og væntingum notanda sem við viljum uppfylla eins vel og við getum.“

Markmið að birta eftir tvær mínútur 

Þá vakti einnig athygli að nokkurn tíma tók fyrir upplýsingar um jarðskjálftann að koma inn á vef stofnunarinnar. Þannig höfðu upplýsingar um skjálftann birst á alþjóðlegum síðum áður en þær birtust á vef Veðurstofunnar.  

Það tekur um 90 sek frá því að skjálfti verður þangað til að okkar innri kerfi gefa okkur fyrstu áreiðanlegar upplýsingar um stærð og staðsetningu. Þetta er tími sem öll kerfi sem vakta jarðskjálfta búa við,“ segir Haukur. 

Haukur Hauksson, samskiptastjóri Veðurstofunnar.
Haukur Hauksson, samskiptastjóri Veðurstofunnar.

„Varðandi tímasetningu á birtingu á upplýsingum um stóra skjálftann í gær þá er dýpra á nákvæmum tölum. En til að stjórna álagi á vefnum þá eru töflur um skjálfta uppfærðar sjálfkrafa á 5 mín fresti (til að stýra álagi í kringum öll þau rauntímagöng sem eru birt á vefnum okkar), þannig að eftir því hvenær skjálfti verður miðað við uppfærslu á ytri vefnum getur max liðið 5 mín + 90 sek að fyrstu tölur birtist eins og staðan er í dag. En markmið sem við höfum sett okkur í þeirri vinnu sem núna er í gangi er 2 mín.“ segir Haukur í skriflegu svari eftir viðtal. 

Enginn endir á kostnaði við upplýsingatækni 

Að sögn Árna stendur til að uppfæra vef stofnunarinnar og hefur til þess fengist fjármagn. Spurður um kostnað þá segir Árni. 

„Það er enginn endir á því hvað upplýsingatækni getur eytt af peningum en við erum bæði að horfa á framenda og bakenda og höfum fengið ávinning um framlag til lagfæringar á vefnum í kjölfar óveðursins í desember. Við fáum fjármagni úthlutað í takti við stefnu ríkisstjórnarinnar um að bæta innviði landsins,“ segir Árni. 

Haukur segir að vefurinn sé kominn til ára sinna. 

„Vefurinn er í tæknilegri skuld gagnvart skalanleika og öðru. Það er verið að vinna í því.“

Upplýsingar á Twitter á ensku 

Veðurstofan er bæði á Facebook og Twitter. Athygli vekur að á Twitter hafa nær öll tíst frá því í ágústbyrjun verið á ensku. Haukur segir það hluta af ritstjórnarstefnu Veðurstofunnar.  

„Við höfum lagt áherslu á að Facebook sé íslenski samfélagsmiðillinn en Twitter sé hugsaður fyrir ferðamenn. Það eru takmörk fyrir því við getum sinnt mörgum miðlum í einu vegna mannskapar,“ segir Haukur. 

Spurður hvort ekki sé hægt að hafa hlutina bæði á íslensku og ensku án þess að kosta miklum mannskap til þá segir Haukur að stefnt sé að því að breyta þessu. 

„Þetta er bara spurning um það hvað við ráðum við. Facebook er vinsælli á Íslandi heldur en Twitter. Þetta er eitt af því sem við erum að vinna í og erum að endurskoða okkar stafrænu miðlastefnu. Hluti af því er að breyta þessum áherslum þannig að hann geti verið á íslensku og ensku. Markhópurinn okkar á Twitter snýr að mestu að samstarfsaðilum og alþjóða samfélaginu og er annar en íslenski markaðurinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert