Rotaðist þegar jörðin kipptist undan

Benedikt Jakobsson skömmu eftir að hann var kominn af Keili …
Benedikt Jakobsson skömmu eftir að hann var kominn af Keili með vafning um höfuðið. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var uppi á toppnum að virða fyrir mér útsýnið við sólklukkuna sem þar er. Ég ætlaði að taka síðustu myndirnar áður en ég færi af stað niður þegar fæturnir fóru bara undan mér og ég missti jafnvægið. Ég var að taka skref í aðlíðandi halla niður á við þegar lappirnar sópuðust undan. Ég í raun féll áður en ég heyri nokkur læti. Tilfinningin var lík því að fá aðsvif. Það næsta sem ég man eftir er þegar ég ranka við mér einhverjum metrum neðar í hallanum. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort það sé einum eða þremur metrum frá því sem ég stóð,“ segir Benedikt Þórður Jakobsson, íbúi í Vogum, sem var í staddur á toppi Keilis einungis nokkrum kílómetrum frá  Núpshlíðarhálsi þar sem skjálfti upp á 5,6 átti upptök sín rétt fyrir klukkan 14 í gær.  

Varða og útsýnispallur fyrir skjálftann.
Varða og útsýnispallur fyrir skjálftann.

Missti meðvitund í nokkrar sekúndur 

„Þegar ég reis upp fann ég að það var enn titringur í jörðinni, nema þá ég hafi verið vankaður ennþá, en mér fannst það. Eftir örfáar sekúndur áttaði ég mig á því á því að þarna hafði farið af stað skriða úr fjallinu eða að jarðskjálfti hefði orðið. Þá hljóp ég beint upp að sólklukkunni þar sem ég hélt að ég væri öruggastur. Það var þar sem ég áttaði mig á því að ég hafði fengið höfuðhögg og væri með skurð á höfðinu,“ segir Benedikt. 

Benedikt rotaðist í fallinu.
Benedikt rotaðist í fallinu. Ljósmynd/Benedikt Jakobsson

Hann segist hafa misst meðvitund í nokkrar sekúndur eftir fallið. „Ég sá svo að ég hafði lent í skriðu í hlíðinni. Ég var ekki í neinum ægilegum bratta en það var nóg til þess að jörðin fór öll af stað. Ég tók einhverjar myndir í óðagoti af staðnum þar sem allt hreyfðist áður en ég hljóp af stað,“ segir Benedikt en sjá má á myndum sem fylgja fréttinni að nú er laust grjót þar sem áður var traust jörð að sögn Benedikts.

Telur sig hafa verið hætt kominn 

Líður þér eins og þú hafir verið hætt kominn? 

„Já alveg klárlega. Maður vissi líka ekkert hvað myndi gerast á eftir. Hvort jörðin myndi fara af stað aftur. Þegar ég hafði staðið upp og áttað mig á hlutunum gekk ég nokkur skref og athugaði með hundinn. Svo hljóp ég upp að útsýnispallinum þar sem mér fannst ég hvað öruggastur í aðstæðunum. Ég var þar í einhverjar sekúndur og gægðist út á brúnina þar sem ég sá par hlaupandi niður fjallið. Ég hafði séð þau fá sér kaffi skömmu áður í hlíðinni og það var gott að sjá að þau voru í lagi. Þá fór ég að velta því fyrir mér hvernig ég kæmist niður og fór að leita að leiðum til þess. Eftir nokkrar mínútur tók ég stefnuna að gönguleið niður sem snýr í áttina að Reykjavík. Hins vegar sá maður engan göngustíg, bara lausamöl. Það var eins og allt hefði farið af stað þar líka. Því tókum við hundurinn af skarið niður fjallið í flýti án þess að hugsa um sérstaka leið,“ segir Benedikt. 

Eftir skjálftann hafði útsýnispallurinn færst úr stað.
Eftir skjálftann hafði útsýnispallurinn færst úr stað. Ljósmynd/Benedikt Jakobsson

Fimm spor í hnakkann 

Að sögn hans fann hann ekki eftirskjálftana greinilega en taka beri tillit til þess að adrenalínið var á fullu og skynfærin að hugsa um aðra hluti eftir að hann rankaði við sér. Hann segir að vel hafi gengið að komast niður. 

Lausamöl og grjót eru þar sem áður var gönguleið niður …
Lausamöl og grjót eru þar sem áður var gönguleið niður af Keili. Ljósmynd/Benedikt Jakobsson

„Um leið og ég kom niður byrjaði síminn að hringja frá aðstandendum. Þegar þau vissu af höfuðhögginu þá var hringt á slysó og ég fór þangað til að fá aðhlynningu,“ segir Benedikt. 

Að sögn Benedikts voru saumuð fimm spor í hnakka hans. Að auki er hann rispaður og marinn á höndum og síðu. Hann segir að sér hafi brugðið mikið við þetta en ekki fundið eftirköst eftir höfuðhöggið og telur hann sig hafa sloppið vel. Hann segist fyrir tilviljun hafa haft sárabindi með í för sem hann hafði ákveðið að kippa með sér rétt áður en hann lagði af stað. „Ég hef aldrei verið með sárabindi með mér í göngu áður en einhverra hluta vegna fannst mér sniðugt að taka það með þennan daginn. Það kom sér svona líka vel,“ segir Benedikt. Þá segir hann að hundinum hafi ekki orðið meint af.

Vinsælt er að fra upp á Keili á Reykjanesi.
Vinsælt er að fra upp á Keili á Reykjanesi. Ljósmynd/Olgeir Andresson

Heppinn að hafa ekki verið á öðrum stað

Hann telur sig heppinn að hafa ekki staðið í meiri halla eða verið nærri brún þar sem þverhnípt er þegar jarðskjálftinn varð. „Ég ligg alveg kylliflatur og ef ég hefði verið nær brúninni þar sem ég var að fara að taka myndir þá veit ég ekki hvernig hefði farið. Eða þá ef ég hefði verið í meiri halla á niðurleið, þá held ég að þetta hefði ekki endað vel. Þá hefði ég eflaust slasast meira,“ segir Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert