Netsvikin sífellt vandaðri

Svikapósturinn ber yfirskrifina: „Netöryggismánuður – Þekkir þú hætturnar?“
Svikapósturinn ber yfirskrifina: „Netöryggismánuður – Þekkir þú hætturnar?“ Skjáskot

Færst hefur í aukana að svikapóstar séu sendir í nafni aðila sem gert er ráð fyrir að almenningur beri traust til, svo sem ríkisstofnana, ráðuneyta og þekktra fyrirtækja, að sögn Daða Gunnarssonar, lögreglufulltrúa hjá netglæpadeild lögreglunnar. Í faraldrinum hafa brot af þessu tagi aukist.

Nýlegt dæmi um slíkt er póstur í nafni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, þar sem því er lýst að október sé netöryggismánuðurinn og Ísland láti ekki sitt eftir liggja – því sé tilvalið fyrir viðtakanda að prófa styrk síns lykilorðs og slá það inn á óörugga síðu.

Pósturinn er skrifaður á ágætri íslensku og liggur því beinast við að spyrja hvort Íslendingar gætu staðið fyrir svindlunum eða svindlarar notið aðstoðar frá íslenskumælandi aðilum. Daði segir það ekki útilokað en þó herji oft sömu svindlin á íbúa Norðurlandanna. Því sé oft um samstillta starfsemi að ræða.

Spurður hvernig best sé að greina á milli svindls og raunverulegra tilkynninga segir Daði: „Það er best að kíkja fyrst á sendandann, úr hvaða netfangi pósturinn er sendur. Síðan er ekki vitlaust að hringja bara í þann aðila sem sendir póstinn, til þess að ganga úr skugga um hvort svindl sé um að ræða,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert