Oslóartréð fellt í Heiðmörk

Dagur B. Eggertsson borgastjóri mun sýna skógarhöggstakta nk. laugardag. Hér …
Dagur B. Eggertsson borgastjóri mun sýna skógarhöggstakta nk. laugardag. Hér má sjá mynd af honum í Heiðmörk fyrir örfáum árum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun fella Oslóartréð á skógræktarsvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk  á laugardaginn klukkan 11.00.

Vegna aðstæðna í samfélaginu verður ekki haldin samnorræn jólastund eins og venjan hefur verið síðastliðin ár, að því er segir í tilkynningu. 

Þar segir einnig, að borgarstjóri muni klæðast viðeigandi öryggisbúnaði og fái verkfæri til verksins og njóti liðsinnis starfsmanns Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Um er að ræða sitkagrenitré sem verður svo sett upp á Austurvelli og jólaljósin tendruð á trénu þann 29. nóvember nk.

Jólatréð sem Reykjavík færir Þórshafnarbúum var fellt í Heiðmörk á mánudaginn og er nú komið í skip Eimskipa á leið til Færeyja. Um er að ræða 11 metra hátt sitkagrenitré sem verður reist á Tinghúsvöllinum, torgi í miðborg Þórshafnar, og tendrað verður á jólaljósunum á trénu þar laugardaginn 28. nóvember nk., segir ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert