Helgi Bjarnason
Vestmannaeyjaferjan Herjólfur gengur ágætlega fyrir rafmagni. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., segir að umtalsverður sparnaður og hagkvæmni sé af því að sigla fyrir rafmagni í stað dísilolíu. Rafmagnið kosti aðeins brot af verði olíu.
Hann gefur ekki upp tölur í því sambandi, segir að reka þurfi skipið í lengri tíma til að sjá raunverulegan kostnað enda sé hann breytilegur eftir árstíma og veðri. Með lagni eigi að vera hægt að sigla á milli hafna á rafmagni eingöngu og því sé takmörkuð notkun á olíu.
Upphaflega var hugmyndin að útbúa nýja Herjólf sem tvíorkuskip (hybrid) þannig að það væri með rafhlöður en gæti skipt yfir á olíu. Á smíðatímanum var ákveðið að stíga skref rafvæðingar til fulls og margfalda stærð rafgeymanna, að því er fram kemur í Morunblaðinu í dag.
Tíma tók að koma hleðsluturnum upp í báðum höfnum og eftir uppfærslu kerfisins nú í haust hefur rafhleðslan gengið vel, að sögn Hjartar Emilssonar, framkvæmdastjóra Navis sem veitt hefur Vegagerðinni ráðgjöf við þetta verk. Skipið er hlaðið í 30 mínútur í hvorri höfn og aðeins notuð 40-80% af hleðslunni til að hámarka endingartíma geymanna.