Fyrstu kynhlutlausu nöfnin samþykkt

Nöfnin Regn og Frost hafa verið færð á mannanafnaskrá og …
Nöfnin Regn og Frost hafa verið færð á mannanafnaskrá og flokkast sem kynhlutlaus nöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mannanafnanefnd samþykkti í lok síðasta árs tvö kynhlutlaus nöfn, eiginnöfnin Regn og Frost. Nöfnin eru fyrstu kynhlutlausu nöfnin sem hljóta náð fyrir augum nefndarinnar.

Alls voru 32 úrskurðir nefndarinnar frá því í október til mars birtir fyrir skemmstu. Var 21 nafn samþykkt en ellefu hafnað. Karlmannsnöfnin Tíberíus, Frederik, Emanuel, Sotti, Nathaníel, Nikolaj, Theó, Theodor, Íkarus og Eydór voru samþykkt, sem og kvenmannsnöfnin Melasól, Lárenzína, Sófía, Ivý, Mylla og Sólheiður.

Hins vegar var eiginnöfnunum Toby, Aleksandra, Lilith, Dania, Zebastian, Regin, Odin, Lord, Kain og Amando hafnað.

Fréttablaðið greinir frá úrskurðinum í dag og ræðir við Regn Sólmund Evudóttur, en hán er fyrsta manneskjan hér á landi til að bera nafnið Regn.

Kynskráning nafna hefur ekki lagalegt gildi

Í samtali við mbl.is segir Sigurður Konráðsson, prófessor í íslensku máli og formaður mannanafnanefndar, að formlega séð séu nöfnin Regn og Frost þau fyrstu sem samþykkt eru sem kynhlutlaus. Fyrir er þó nafnið Blær skráð bæði sem kven- og karlmannsnafn, eftir úrskurð héraðsdóms í máli stúlku sem hafði verið gefið nafnið við fæðingu.

Samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði, sem samþykkt voru á Alþingi í fyrra, eru nöfn þó ekki bundin við kyn og öllum því heimilt að taka upp þau nöfn sem eru á mannanafnaskrá. Aðspurður segir Sigurður að flokkunin í karlkyns- og kvenkynsnöfn, og nú kynhlutlaus, sé því fyrst og fremst fræðileg.

„Það hefur meira að segja verið talað um að það komi til greina að hafa bara eina skrá yfir nöfn [þ.e. án aðgreiningar eftir kyni],“ segir Sigurður. Nefndin hafi ekki tekið neina afstöðu til þess, en fylgi einfaldlega fyrirmælum löggjafans.

Spurður hvort samþykkt kynhlutlausra nafna sé tímamót í sögu íslenskrar nafnahefðar, dregur Sigurður þó úr. „Mannanöfn og mannanafnasiðir hafa verið að breytast frá því við höfum elstu heimildir um mannanöfn á norræna málsvæðinu. Þannig að það eru alltaf einhverjar breytingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka