„Auðvitað er þetta óþægilegt“

„Auðvitað er þetta óþægilegt,“ segir Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar um skotárás á höfuðstöðvar flokksins í Sóltúni þar sem fimm skotgöt eru sjáanleg á rúðum. Hún segir engar hótanir hafa borist sem hægt sé að tengja við árásina. 

Hún segir að fundarhald hafi staðið yfir í húsinu þar til klukkan átta í gærkvöldi og að fyrsti maður hafi verið mættur í hús um klukkan níu í morgun. Skotið hafi verið á húsið á því tímabili en lögreglan fann skot á vettvangi sem heimildir mbl.is herma að séu úr lítilli skammbyssu.  

Skemmdarverk á höfuðstöðvum stjórnmálaflokka á Íslandi eru ekki ný af nálinni og Stundin greinir frá því að sambærilegar árásir hafi verið gerðar á höfuðstöðvar Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins hér á landi á undanförnum árum.

Samfylkingin er þó jafnaðarmannaflokkur sem leggur áherslu á fjölmenningu og systurflokkar hennar á Norðurlöndum hafa verið skotmörk skotárása í gegn tíðina. Þar ber hæst skelfileg árás hægri öfgamannsins Anders Behring Breivik á samkomu ungra jafnaðarmanna í Útey fyrir 10 árum síðan þar sem 69 manns lágu í valnum.

Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að skothríðin í Sóltúni hafi verið af sama toga. Í myndskeiðinu er rætt við Karen í höfuðstöðvum Samfylkingarinnar í hádeginu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert