Áhrifavaldurinn Kara Kristel er ein af þeim konum sem voru ranglega greindar í leghálsskimun Krabbameinsfélags Íslands. Kara fór tvisvar í skimun á tveimur árum en í annað skiptið fann hún sjálf að eitthvað var að.
Hún fékk þó ekki símtal um slíkt fyrr en um ári síðar þegar sýni hennar hafði verið greint aftur og í ljós kom að hún var bæði með frumubreytingar í leghálsi og HPV-veiruna.
Kara segir mistökin vonbrigði, eitthvað sem eigi ekki að geta gerst.
Sýni Köru var endurskoðað, eins og fjölmörg önnur í kjölfar þess að ung kona lést úr leghálskrabbameini. Mistök höfðu verið gerð við greiningu hennar sýnis.
„Þetta eru ekki skemmtilegustu fréttir heimsins,“ segir Kara í samtali við mbl.is. „Ég var ekki leið eða reið, þetta kom mér eiginlega ekki á óvart vegna þess að ég þekki líkamann minn mjög vel og ég fann að það var eitthvað að.“
Kara á að mæta aftur í leghálsskimun í byrjun marsmánaðar enda eru konur sem greinast með bæði HPV-veiruna og frumubreytingar í meiri áhættu á leghálskrabbameini en aðrar. Þó Kara sé ekki reið yfir mistökunum segir hún þau vonbrigði.
„Þetta er eitthvað sem þú átt að geta treyst vegna þess að þetta er ekki bara eins og að fara til tannlæknis. Þetta getur bókstaflega verið upp á líf og dauða. Það þurfti í alvörunni ung kona að láta lífið í fyrra til þess að þessi sýni yrðu skoðuð aftur,“ segir Kara.
Hún spáir þó ekkert í því hvað hefði getað gerst ef sýni hennar hefði ekki verið endurskoðað. Hún einbeitir sér að núinu.
Hvað finnst þér um að eitthvað svona hafi komið upp á í svona mikilvægri þjónustu sem snertir heilsu kvenna?
„Þetta er náttúrulega grafalvarlegt. Mannleg mistök eru í lagi en þurfa konur að deyja út af mannlegum mistökum, oft? Þarf einhver að deyja til þess að mannlegu mistökin séu leiðrétt?“ segir Kara.
Hún tekur þó fram að þegar mistökin hafi verið uppgötvuð hafi starfsfólk Krabbameinsfélagsins tekist vel á við það, í hennar tilviki í það minnsta.
„Ég fékk að mæta strax og það var mjög vel staðið að þessari leiðréttingu, þessari nýju skimun og nýju greiningu. Ég fékk niðurstöðu úr því mjög hratt og fagmannlega. Það er mjög mikið af flottu fólki sem er að taka skellinn fyrir mistökin.“
Kara segir að afstaða hennar til heilbrigðiskerfisins hafi ekki breyst eftir þetta en afstaða hennar til þess hafi í raun aldrei verið góð.
„Þetta kom mér heldur ekkert á óvart vegna þess að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með heilbrigðiskerfið áður.“
Um áramótin var skimun fyrir leghálskrabbameini færð til Landspítala. Kara segir óásættanlegt að með því hafi biðtími eftir skimun lengst.
„Hvað ef einhver af þessum konum sem voru ranglega greindar þarf að bíða vikum saman eftir því að komast í skimun?“ spyr Kara að lokum.