Félag íslenskra rannsóknarlækna varar við því að frumusýni frá leghálsi verði flutt úr landi til greiningar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu í ljósi þess að frumusýni verða framvegis send til Danmerkur þegar samningar hafa náðst við þarlenda rannsóknarstofu.
„Hér á landi er til staðar áralöng og yfirgripsmikil sérþekking á skoðun þessara sýna sem mikil synd væri að missa úr landi. Það fagfólk sem hingað til hefur sinnt skimunum hjá Krabbameinsfélaginu mun leita í önnur störf og það er því ljóst að erfitt gæti orðið að færa skimunina aftur til landsins,“ segir í tilkynningunni.
„Yfirvöld ákváðu að endurnýja ekki samning við Krabbameinsfélagið um þessar rannsóknir um síðustu áramót og skv. fréttum í fjölmiðlum munu þau frumusýni frá leghálsi sem tekin hafa verið síðan í byrjun nóvember liggja óskoðuð í kössum, en verða send til Danmerkur þegar samningar nást við rannsóknarstofu þar. Furðu vekur að svo viðamikil skipulagsbreyting hafi verið gerð án þess að samningur um áframhaldandi skoðun sýnanna lægi fyrir,“ segir einnig í tilkynningunni.
Fram kemur að gera þyrfti ýmsar ráðstafanir til að Landspítalinn gæti tekið að sér rannsóknirnar enda skorti til þess tækjakosti, sérhæft starfsfólk og húsnæði. „Félag íslenskra rannsóknarlækna veit ekki til þess að grundvöllur fyrir slíkum breytingum hafi verið kannaður í þaula og telur að sú fullyrðing að spítalinn hafi ekki burði til að taka að sér þessar rannsóknir standist varla.“
Einnig segir í tilkynningunni að sýkla- og veirufræðideild Landspítalans hafi tæki og sérfræðiþekkingu í að greina HPV-veiruna, sem veldur nær öllum forstigsbreytingum og krabbameinum í leghálsi, og hafði hún sinnt þeim greiningum fyrir Krabbameinsfélagið.
„Deildin fékk nýlega afkastamikið PCR greiningartæki (Cobas 8800), sem gæti auðveldlega annað HPV greiningum í tengslum við skimanir fyrir leghálskrabbameini. Það verður því ekki séð að gera þyrfti þessar greiningar erlendis, eins og virðist standa til.“