Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mikilvægt að allsherjar- og menntamálanefnd fari vel yfir frumvarp til laga um breytingar á mannanöfnum og gaumgæfi þau sjónarmið hvort frumvarpið skapi hættu fyrir íslenskt málkerfi og málhefðir.
Þetta sagði Katrín í óundirbúnum fyrirspurnatíma Alþingis í dag er hún svaraði fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins.
Dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um breytingar á mannanafnalögum en verði það samþykkt verður mannanafnanefnd lögð niður og upptaka ættarnafna gefin frjáls. Áður hefur verið greint frá því að ekki sé einhugur um málið innan þingflokks Vinstri-grænna.
Katrín sagðist hafa stutt framlagningu frumvarpsins, en mikilvægt væri að nefndin færi vel yfir fyrrnefnd sjónarmið. „Ég hef kynnt mér umsagnir og veit að þær eru sumar gagnrýnar á suma þætti frumvarpsins – en þó ekki alla,“ sagði Katrín.
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, var málshefjandi. Hann vakti athygli á meintu ósamræmi ríkisstjórnarinnar í stefnu hennar um íslenska tungu. Forsætisráðherra leggi fram frumvarp um að staða íslenskunnar sé fest í stjórnarskrá og ríkisvaldinu falið að styðja hana, en á sama tíma leggi dómsmálaráðherra fram fyrrnefnt mannanafnafrumvarp.
Ólafur, sem hefur verið gagnrýninn á mannanafnafrumvarpið, vísaði einu sinni sem oftar til orða Guðrúnar Kvaran, prófessors í íslensku, sem segir frumvarpið vinna gegn íslensku mál- og beygingarkerfi.
Spurði Ólafur Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvort hún styddi mannanafnafrumvarp dómsmálaráðherra og hvort hún teldi það til þess fallið að „styðja og vernda“ íslenska tungu eins og hennar eigin tillaga að stjórnarskrárákvæði segir að ríkið skuli gera.