Krabbameinsfélagið hafi átt að ljúka verkinu

Kristján Oddson, svæðisstjóri og fagstjóri lækninga hjá heilsugæslunni í Hamraborg.
Kristján Oddson, svæðisstjóri og fagstjóri lækninga hjá heilsugæslunni í Hamraborg. mbl.is/Styrmir Kári

Kristján Oddsson, fagstjóri lækninga hjá heilsugæslunni í Hamraborg, segir að Krabbameinsfélag Íslands hefði átt að bregðast fyrr við þegar ljóst var seint á árinu 2019 að skimanir vegna legháls- og brjóstakrabbameins færu í hendur annarra.

Þegar samningur Krabbameinsfélagið við ríkið vegna skimana rann út um áramótin hætti félagið að skima. Þá átti það eftir að greina um tvö þúsund sýni.

„Ef menn hefðu ætlað að klára þau sýni sem þeir tóku og ætluðu að rannsaka hefði tímastjórnunarþátturinn hjá Krabbameinsfélaginu kannski átt að vera öðruvísi,“ sagði Kristján í Kastljósi fyrr í kvöld. Hann bætti við að ef menn fái greitt fyrir þjónustu sem menn taki að sér eigi menn að ljúka henni.

Heilbrigðisráðuneytið hefur fært brjóstaskimanir yfir til Landspítalans og leghálsskimanir til heilsugæslunnar. Þegar heilsugæslan tók við málaflokknum ætlaði hún að semja við danska rannsóknarstofu um að greina sýnin en samningar tókust ekki og því þurfa nokkur hundruð konur líklega að fara aftur í skimun. Spurður hvers vegna ekki var farið beint með sýnin á Landspítalann til greiningar sagði hann: „Við vorum komnir með lausn og það dróst að skrifa undir. Það var vegna Covid.“

Inntur eftir því hvers vegna þær konur sem bíða eftir niðurstöðum úr sýnatöku þurftu að lesa um það í fjölmiðlum að sýnin hafi verið í nokkrar vikur í pappakössum í Hamraborg, svaraði hann: „Orsökin er sú að Krabbameinsfélagið lýkur ekki við að rannsaka þau sýni sem þau tóku sjálf og koma þeim í pappakössum til heilsugæslunnar til úrvinnslu.“

Á morgun er von á niðurstöðum vegna fyrstu sýnanna sem voru send út til Danmerkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert