Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir að lögreglan sé með mál, þar sem mögulega var hleypt af byssu á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, í algjörum forgangi.
„Það eina sem við getum sagt er, að að sjálfsögðu er þetta litið mjög alvarlegum augum og þessi rannsókn er í algjörum forgangi,“ segir Ásgeir Þór í samtali við mbl.is.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu getur ekki gefið upp meiri upplýsingar um rannsóknina að svo stöddu. Rannsakað er hvort málið geti tengst röðum skota á hús stjórnmálaflokka sem fjallað hefur verið um undanfarið.
Allt að átta tilkynningar hafa borist lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem ná aftur til ársins 2019 um skemmdarverk eða árásir á skrifstofuhúsnæði stjórnmálaflokka. Málið er á herðum miðlægrar deildar lögreglu eftir að grunur vaknaði um að sami aðili gæti borið ábyrgð á öllum árásunum.