Arturas Leimontas var í morgun dæmdur í 16 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa kastað kastað öðrum manni fram af svölum í Úlfarsárdal í Reykjavík í desember 2019 með þeim afleiðingum að hann lést.
Greint er frá þessu á vef RÚV.
Leimontas er 51 árs gamall og frá Litháen en hann er búsettur hérlendis. Sá sem lést, Egidijus Buzleis, var einnig frá Litháen og búsettur hér á landi.
Afar umfangsmikil rannsókn var gerð á málinu en lögregla sviðsetti til að mynda vettvanginn að viðstöddum verkfræðiprófessor og fleirum og kastaði brúðu í mannslíki, sem líktist Buzleis að hæð og þyngd, úr sömu hæð og fram af jafn háu handriði.
Atburðarásin var tekin upp með fjórum myndavélum samtímis. Niðurstaða sérfræðinga var sú að Buzleis hafi sennilega verið kastað eða hrint af afli fram af svölunum.