Ætlar að biðja Dag afsökunar vegna færslu

Færsla Ólafs á Facebook í gær.
Færsla Ólafs á Facebook í gær.

Ólafur Kr. Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segist sjá eftir færslu sem hann setti á Facebook í gærkvöldi. Þar gerði hann að því skóna að skotárás á bíl Dags B. Eggertssonar væri afleiðing hegðunarmynsturs sem hefði hafist í hruninu. 

„Þetta voru algjör mistök sem gerð voru í einhverju „bríeríi.“ Ég var að fara að sofa og var uppi í rúmi og datt þetta í hug þegar ég fór yfir umræðuna. En svo vaknaði ég í morgun og las þetta aftur og sá að þetta var ekki við hæfi,“ segir Ólafur. Eyddi hann færslunni í framhaldinu. 

Eins og fram hefur komið fundust skotför í bíl borgarstjóra í síðustu viku. Var tilefni færslu Ólafs viðtal við Dag í kjölfar árásarinnar.  

Ólafur Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Ólafur Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Ólafur segist ætla að biðja borgarstjóra afsökunar á málinu. „Ég áttaði mig ekki á alvarleikanum í málinu. Það hefur verið alls konar sem menn hafa gert í gegnum tíðina en þarna er greinilega farið langt yfir strikið," segir Ólafur. 

„Ég áttaði mig á því að ég fór of langt og ætla að finna meilið hjá Degi til þess að senda honum afsökunarbeiðni,“ segir Ólafur.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert