Í tilkynningu sem Reykjavíkurborg hefur sent frá sér vegna umræðu um Óðinstorg er áréttað að kostnaður vegna torgsins hafi numið 60,6 milljónum króna. Því er hafnað að borgarstjóri hafi keypt bílastæði af borginni og eigi þrjú bílastæði við Óðinstorg þar sem hann býr.
Í myndbandi, sem Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins talar inn á, og var framleitt fyrir aðgerðahópinn Björgum miðbænum og birt var á Facebook um miðjan desember síðastliðinn segir að framkvæmdir við Óðinstorg hafi kostað 657 milljónir króna. Því er einnig haldið fram í myndbandinu að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi keypt þrjú bílastæði af borginni við hús sitt án útboðs. Þá er Óðinstorg er sagt gæluverkefni sem hafi þann eina tilgang að útrýma fjölda bílastæða fyrir íbúa, nágranna og gesti hótelsins við torgið.
Það hefur verið gefið í skyn og því hefur verið haldið fram að orsakatengsl séu á milli myndbandsins og skotárásina á bifreið borgarstjóra. Vigdís Hauksdóttir hefur sagt að málin séu algjörlega óskyld en vegna umræðu síðustu daga hefur Reykjavíkurborg sent frá sér fréttatilkynningu þar sem staðreyndum er haldið til haga.
Í henni segir að í svari frá fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar við spurningum frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Miðflokknum um kostnað við endurgerð torgsins og aðliggjandi gatna hafi saga torgsins og endurgerðar þess verið rakin. Þar komi fram að kostnaður við sjálft Óðinstorg hafi aðeins verið hluti af kostnaði við framkvæmdina en lagnir og fráveita í nærliggjandi götum einnig verið endurnýjaðar.
„Kostnaður við endurgerð Óðinstorg var 60,6 milljónir króna. Framkvæmdakostnaður Reykjavíkurborgar við endurgerð Óðinsgötu, Óðinstorgs, Týsgötu og Freyjutorgs hluta Spítalastígs, Skólavörðustígs, Lokastígs, Bjargarstígs og Freyjugötu árin 2017-2020 var hins vegar 474,2 milljónir króna. Samþykktar fjárheimildir borgarráðs vegna verkefnisins voru 505 milljónir króna og lokakostnaður við verkið því minni en áætlað var,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur þar fram að bílastæði á baklóð við heimili borgarstjóra séu fimm og öll í einkaeigu. Lóðin hafi verið skilgreind sem bílastæðalóð og hafi verið í eigu íbúa og fyrrverandi íbúa í nærliggjandi húsum áratugum saman.
„Tíu ár eru síðan eldri hjón sem þurftu að flytja af heilsufarsástæðum buðu borgarstjórahjónunum að kaupa tvö stæði, til að þau héldust í eigu fólks sem byggi við lóðina. Fyrir þau var greitt uppsett verð.
Borgarstjóri og fjölskylda hefur aldrei keypt bílastæði af Reykjavíkurborg eins og ranglega hefur verið haldið fram. Þau hafa heldur aldrei átt þrjú bílastæði á lóðinni eins og fullyrt hefur verið.“