Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa fordæmt ummæli sem Ólafur Guðmundsson, varaborgarfulltrúi flokksins, lét falla undir frétt um skotárás sem gerð var að fjölskyldubíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.
Ólafur virtist vísa til þess að skotárásin væri afleiðing þess sem hampað hefði verið frá hinu „svokallaða Hruni“ árið 2008. Byltingin væri nú komin heim og borgarstjóri yrði bara að taka því.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir á twittersíðu sinni að ummæli Ólafs séu dapurleg og að hún fordæmi þau, hafi leikið einhver vafi á því. Katrín Atladóttir, einnig borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gerir hið sama og segir ummælin sorgleg. Enginn eigi að þola hótanir og árásir í opnu og frjálsu samfélagi.
Hafi það verið einhverjum vafa undirorpið, þá fordæmi ég þessi dapurlegu ummæli Ólafs. Það hlýtur að vera algjört grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi að fólk geti tekið þátt í pólitískri umræðu án þess að öryggi þess sé ógnað eða friðhelgi heimilis og fjölskyldu rofin. https://t.co/aASAI58pOQ
— Hildur Björnsdóttir (@hildurbjoss) January 29, 2021
Sorgleg ummæli hjá honum. Enginn á að þola hótanir og árásir sem þessar í opnu og frjálsu samfélagi. Við eigum öll sem eitt að fordæma þær.
— Katrín Atladóttir (@katrinat) January 29, 2021
Ólafur kveðst hafa gert mistök í samtali við mbl.is. Hann segist hafa sent borgarstjóra skilaboð til að biðja hann afsökunar.
„Þetta voru algjör mistök sem gerð voru í einhverju „bríeríi.“ Ég var að fara að sofa og var uppi í rúmi og datt þetta í hug þegar ég fór yfir umræðuna. En svo vaknaði ég í morgun og las þetta aftur og sá að þetta var ekki við hæfi,“ segir Ólafur.
Lögregla rannsakar nú umrædda árás, en í gær var greint frá því að skotið hafi verið á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og fjölskyldu hans, að öllum líkindum á meðan hann stóð fyrir utan heimili þeirra.