Hatursorðræða gegn stjórnmálum verið viðurkennd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fordæmdi árásina sem var gerð á bíl borgarstjóra í ræðu sem hún hélt á flokksráðsfundi VG sem hófst klukkan 17.

Hún sagði að sem betur höfum við ekki vanist því að skotvopnum sé beitt hér á landi í slíkum árásum og sagðist hún vona að um einstakan viðburð sé að ræða.

Ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti

Hún sagði árásina ekki koma eins og þrumu úr heiðskíru lofti. „Því miður hefur samfélag okkar viðurkennt hatursorðræðu gagnvart stjórnmálum og einstökum stjórnmálamönnum og nægir að líta yfir samfélagsmiðla reglulega til að lesa um hið ónýta Alþingi og viðurstyggilega spillta stjórnmálamenn sem eru undirlægjur, fullir af mannhatri og mannvonsku og standa jafnvel fyrir nýjum helförum. Svo ég noti nokkur þau orð sem ég hef nýlega séð höfð um sjálfa mig og aðra stjórnmálamenn,“ sagði Katrín. 

„Mörkin hafa færst til og það hefur áhrif. Þar með er ég ekki að biðjast undan málefnalegri umræðu þar sem fólk greinir á. Við getum verið ósammála en þurfum ekki að vera óvinir,“ sagði hún og bætti við. „Ég vil samfélag þar sem fólk í stjórnmálum getur gengið frjálst um götur og þar sem fjölskyldur og nágrannar stjórnmálafólks þarf ekki að búa við óeðlilegar aðstæður. Þetta hefur verið aðalsmerki Íslands sem lengi hefur verið talið eitt friðsama ef ekki friðsamasta land í heimi og þannig á það að vera áfram,“ sagði hún.

Vildu verja samfélagslega innviði 

Katrín minntist á baráttu stjórnvalda við kórónuveirufaraldurinn og sagði að frá upphafi hafi verið sett skýr markmið, sem hafi skipt höfuðmáli. Þau voru fyrst og fremst að að vernda líf og heilsu landsmanna. Samhliða því átti að lágmarka samfélagslegan og efnahagslegan skaða. Árangurinn við að takast á við veiruna hafi verið góður. 

Hún sagði bjartari tíma framundan með komu bóluefnis við veirunni. „Við erum byrjuð að bólusetja og þó að enn séu afhendingaráætlanir lyfjafyrirtækanna á hreyfingu þá er bólusetningin hafin, tæplega 5.000 hafa lokið bólusetningu og tæplega 6.000 hafa hafið bólusetningu og nú mun þetta gerast smám saman á þessu ári.“

Forsætisráðherra hélt áfram og talaði um halla ríkissjóðs: „Halli ríkissjóðs hefur því miður aldrei verið meiri í lýðveldissögunni og tekur langt fram úr halla eftirhrunsáranna en það er vegna þess að við tókum við þá pólitísku ákvörðun að fara ekki eingöngu í sértækar stuðningsaðgerðir heldur að verja alla samfélagslega innviði. Að beita ekki niðurskurði heldur verja velferðina og afkomu fólks og áfram verði jöfnuður mikill á Íslandi,“ sagði hún.

„Þessi kraftur ríkisfjármálanna hefur notið stuðnings peningastefnunnar en aldrei í lýðveldissögunni hafa vextir verið jafn lágir. Það er gríðarlega stórt lífskjaramál sem mun einnig styðja okkur út úr kófinu. Þetta er fjarri því að vera sjálfsögð ákvörðun og kröfur um niðurskurð gætu skollið á þjóðinni ef illa færi í næstu kosningum,“ bætti Katrín við.

Lækkun greiðsluþátttöku mikilvæg

Hún nefndi að þrátt fyrir kreppu hafi flokkurinn hvergi hvikað frá uppbyggingu á kjörtímabilinu. Lækkun greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu sé afar mikilvæg jöfnunaraðgerð. „Þetta hefur verið forgangsverkefni okkar kröftuga heilbrigðisráðherra en markmiðið er að í lok þessa kjörtímabils verði greiðsluþátttaka sjúklinga sambærileg við það sem best gerist annars staðar á Norðurlöndum. Það mun nást og mun skipta mjög miklu, ekki síst fyrir öryrkja og aldraða,“ sagði hún.

Minntist á ráðuneytin og stjórnarskrána

Jafnframt minntist hún á fréttaflutning um að öll ráðuneytin hefðu blásið út. Hún sagði að þarna hafi verið undir hin gríðarmikla útgjaldaaukning sem hafi farið í samfélagsleg verkefni á þessu kjörtímabili, samneysluna. Fjármununum hafi verið varið í að byggja upp sterkari samfélagslega innviði.

Sömuleiðis minntist hún á breytingar á stjórnarskránni og sagði að ætlunin sé að tryggja að auðlindir sem ekki séu háðar einkaeignarétti verði þjóðareign. Þær verði ekki afhentar varanlega og löggjafanum beri að kveða á um gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda í ábataskyni og gangsæis og jafnræðis sé gætt við úthlutun nýtingarheimilda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert