Ólafur víkur úr nefndarsætum

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á …
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fundir borgarstjórnar. Myndin er úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, mun víkja úr nefndarsætum sínum á næsta borgarstjórnarfundi á þriðjudag. Þetta var ákveðið í samstarfi við aðra fulltrúa Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn.

Ólafur lét ummæli falla við frétt um skotárás sem gerð var á bíl Dags B. Eggertssonar, sem vakið hafa reiði margra, meðal annars samflokksmanna Ólafs í borgarstjórn.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. mbl.is/Arnþór Birkisson

Eyþór Arnalds, oddviti flokksins, segir í samtali við mbl.is að með þessu vilji Sjálfstæðisflokkurinn axla ábyrgð. Ummæli Ólafs hafi verið algjörlega óviðeigandi.

„Já, ég ræddi við hann og ég sagði honum að þetta væri algjörlega óviðeigandi. Þetta eru ummæli sem við viljum ekki hafa í yfirvegaðri stjórnmálaumræðu. Hann hefur beðist afsökunar eins og fram hefur komið og axlar ábyrgð með því að víkja úr nefndarsætum,“ segir Eyþór í samtali við mbl.is

Stjórnmálaumræða verið á lágu plani undanfarið

Eyþór segir að orðræða í pólitík í heiminum hafi verið á lágu plani á undanförnum misserum. Skotárásir á flokksskrifstofur hérlendis og skotárás á bíl borgarstjóra sé eitthvað sem alls ekki eigi að líðast.

„Stjórnmálaumræða hefur verið á lágu plani í heiminum undanfarið. Þegar við sjáum skotárásir líkt og gerðar eru á flokksskrifstofur ítrekað og nú síðast á fjölskyldubíl borgarstjóra, þá er ástandið orðið rafmagnað. Við viljum auðvitað standa vörð um tjáningarfrelsi en öllum má vera ljóst að svona verði ekki liðið.“

Ummæli Ólafs. Þeim hefur nú verið eytt.
Ummæli Ólafs. Þeim hefur nú verið eytt. Skjáskot/Twitter

Gefa atburðir liðinna daga tilefni til þess að borgarfulltrúar komi sér saman um að útrýma hatrammri orðræðu innan borgarstjórnar?

„Alveg hiklaust. Við erum sammála um að fleiri en einn og fleiri en tveir hafi farið út fyrir mörk. Hver og einn verður að byrja á sjálfum sér og við sjálfstæðismenn viljum axla ábyrgð með þessum hætti og vonum að aðrir flokkar geri það líka.“

Ólafur Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.
Ólafur Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert