Viðar Guðjónsson
„Það var reynt að gera þetta að pólitísku máli til þess að dreifa athyglinni frá alvarleikanum sem er uppi í íslensku samfélagi vegna árása á hús stjórnmálaflokka og bíl borgarstjóra," segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins spurð um þá gagnrýni sem beinst hefur að henni vegna myndbands þar sem heimili borgarstjóra og umhverfið þar í kring er til sýnis.
Myndbandið er á vegum aðgerðarhópsins Björgum miðbænum og er Vigdís sögumaður í myndbandinu. Líf Magneudóttir borgarfulltrúi VG birti á twitter þá skoðun sína að henni fyndist myndbandið viðbjóður og hafa margir tekið þann pól í hæðina að benda á að það sé nýlunda sé í pólitík á Íslandi að birta myndir af heimili stjórnmálamanns.
Þetta myndband er svo mikill viðbjóður. Svo andstyggilegt, ómálefnalegt og siðlaust. Fyrir utan afleiðingarnar sem það gæti haft í för með sér þegar kjörinn fulltrúi hegðar sér með þesssum óábyrga og ósvífna hætti; marklaust og siðspillt. Ég fordæmi þetta. https://t.co/bpaNzdK7a7
— Líf Magneudóttir (@lifmagn) January 28, 2021
„Þessi tvö mál eru algjörlega óskyld en þeir sem hafa fylgst með minni pólitík vita að ég er baráttumaður gegn flótta fyrirtækja úr miðbænum. Ég hef verið að benda á framúrkeyrslu og lögbrot og hef verið í málefnalegri pólitík. Ég tek ekki þátt í þessum leik Lífar Magneudóttur um að gera mig ábyrga fyrir þessum árásum. Þessi tvö mál eru algjörlega aðskild og þetta er léleg og ósvífin pólitík sem birtist hjá Líf Magneudóttur,“ segir Vigdís.
Hún segir að málinu sé lokið af hennar hálfu eftir fund forsætisnefndar í dag.