Erfiðar tilfinningar, óöryggi og álag

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir margt hafa leitað á hugann eftir að skotið var á bíl hans. Spurður í Silfrinu hvort hann gæti hugsað sér að hætta í stjórnmálum vegna atviksins sagði hann að þetta væri ekki vika þar sem hann ákvæði slíkt.

„Auðvitað vill maður ekki skapa það fordæmi að með því að ógna einhverjum eða hóta þá hrekist einhver úr stjórnmálum,“ sagði hann og bætti við að hann brynni fyrir borginni og ýmsum verkefnum í tengslum við hana. „En það eru auðvitað takmörk fyrir því hvað maður lætur yfir sitt nánasta umhverfi ganga.“

Hann sagði allar líkur á því að skotið hefði verið á bílinn á bílastæðinu fyrir aftan heimili hans aðfaranótt föstudags eða laugardags í síðustu viku. „Þetta er í höndum lögreglu. Við teljum okkur ekki hafa orðið vör við neitt.“

Dagur sagði að eiginkona hans og börn hefðu tekið því sem gerðist af „ótrúlegu æðruleysi“. Hann bætti þó við að svona löguðu fylgdu erfiðar tilfinningar, óöryggi og álag.

Tveir hafa verið handteknir vegna málsins og annar þeirra úrskurðaður í gæsluvarðhald. Spurður hvort hann telji sig vera í hættu sagðist hann vona ekki og vill ekki hrapa að neinum ályktunum. Málið sé óupplýst, lögreglan rannsaki það og þangað til þá bíði þau eftir niðurstöðu.

Skotið var á skrifstofu Samfylkingarinnar.
Skotið var á skrifstofu Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður út í öryggi hans sagði borgarstjóri að lögreglan hefði verið mjög fagmannleg en hún mæti frá degi til dags hvað þyrfti að gera. Lögregluvakt hefur verið um helgina  meðan staðan hefur verið óljós. „Við erum í því að velta fyrir okkur þessu öryggi sem er algjörlega nýtt fyrir okkur.“

Dagur kvaðst velta fyrir sér, varðandi meiri hörku í samskiptum og minni þolinmæði, að fólk væri viljandi eða óviljandi búið að hækka tóninn. Taldi hann þróunina vera að einhverju leyti alþjóðlega. Hann sagði mikilvægt að draga línu í sandinn og ræða saman.

Spurður út í myndband sem samtökin Opnum Laugaveginn og Skólavörðustíg birtu í desember sagðist hann ekki vilja flana að neinu varðandi orsakasamhengi milli þess og árásarinnar. „Til þess vitum við ekki nógu mikið um þessa skotárás.“

Hann sagði að sér og fjölskyldu sinni fyndist myndbandið óhugnanlegt og þarna væri verið að fara inn á nýjar brautir í íslenskum stjórnmálum. Minntist hann á viðtal vegna myndbandins þar sem hann talaði um að búið væri að færa mörkin og gera heimili hans að skotskífu. „Þá grunaði mig ekki það sem núna gerðist,“ sagði hann og bætti við að það sem haldið er fram í myndbandinu hefði áður verið hrakið ítarlega í fjölmiðlum. Upphæðin varðandi framkvæmdir á torginu hefði verið tífölduð og búin til saga um að hann og fjölskylda hans hefðu keypt þrjú bílastæði af borginni án útboðs.

Tilhæfulausar ásakanir

Settar hefðu fram verið tilhæfulausar ásakanir um torgið. Bæði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, og Bolli Kristinsson kaupmaður hefðu vitað að ekki væri sagt rétt frá kostnaðinum við torgið og að sannleiksgildið vegna bílastæðanna hefði ekkert verið kannað.

„Maður veit ekki hvernig á að bregðast við svona,“ sagði hann og nefndi að auðugur maður [Bolli Kristinsson] hefði lýst því yfir að hann ætlaði að koma honum frá völdum. „Svo er birtur óhróður og snúið út úr þessu án þess að biðjast afsökunar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka