Munurinn á máli manns sem kærði skotárás á bíl hans í Vogahverfi og skotárásar á bíl borgarstjóra snýr að tilgangi að baki árásinni. Þannig var skotárás á bíl mannsins í Vogahverfi flokkuð sem minniháttar skemmdarverk en skotárás á bíl Dags B. Eggertssonar flokkuð sem brot gegn valdstjórn vegna stöðu Dags sem opinbers starfsmanns.
Eins og fram kom í frétt mbl.is um mál manns í Vogahverfi átti árásin sér stað í fyrra. Var rannsókn á málinu hætt og manninum gert það ljóst bréfleiðis frá lögreglu að ástæðan væri sú að ekki væri talinn grundvöllur fyrir að halda rannsókn áfram. Maðurinn var ósáttur við vinnubrögð lögreglu og kærði málið til ríkissaksóknara þar sem það er enn í vinnslu.
Að sögn Huldu Elsu Björgvinsdóttur, sviðsstjóra á ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, geta árásir af þessu tagi verið flokkaðar á ólíkan átt eftir samhengi þeirra.
„Rannsóknin fer eftir því á hvað eða hvern skotið er. Í einhverjum tilvikum hefur verið litið svo á um sé að ræða eignarspjöll, í öðrum brot á vopnalögum, hótun, hættubrot og nú [í máli borgarstjóra] er um að ræða brot gegn valdstjórninni. Það skiptir máli hvað býr að baki. Jafnvel geta öll brot átt við,“ segir Hulda Elsa.
Í frétt mbl.is um mál mannsins í Vogahverfi sagði upphaflega að rannsókn hefði verið felld niður. Það er ekki rétt orðalag heldur var rannsókn málsins hætt.
„Stundum er það mat lögreglu að það sé ekki til neins að halda rannsókn málsins áfram þar sem það muni ekki leiða til neinnar frekari gagnaöflunar. Þá er rannsókn hætt. Slíka ákvörðun er hægt að kæra til ríkissaksóknara,“ segir Hulda Elsa.
Hulda Elsa segir að vissulega sé skotárás alvarlegur verknaður í sjálfu sér og það geti hljómað undarlega að mál séu flokkuð með ólíkum hætti. „Auðvitað er það mjög alvarlegur verknaður þegar menn eru að skjóta innanbæjar,“ segir Hulda Elsa.
„Ef ríkissaksóknari telur að við höfum ekki verið að standa okkur í þessu máli þá verður það tekið upp aftur,“ segir Hulda Elsa.