Rannsókn lögreglu á skotum á fjölskyldubíl Dags B. Eggertssonar og á skrifstofu Samfylkingarinnar er lokið og hefur málinu verið vísað til héraðssaksóknara. Þetta staðfesta Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Kolbrún Baldursdóttir aðstoðarhéraðssaksóknari við mbl.is.
Greint var frá því í gær að maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa skotið á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og húsnæði Samfylkingarinnar um síðustu helgi er fyrrverandi lögreglumaður sem hlotið hefur dóm fyrir kynferðisbrot gegn þremur börnum árið 2003. Hann fékk uppreist æru árið 2010.