Hlutirnir hafi snúist við

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að hlutirnir hafi snúist við í tengslum við fyrirhugaða Sundabraut. Þegar starfshópur Vegagerðarinnar fór af stað hafi Sundagöng verið líklegasti samgöngukosturinn en Sundabrú raunhæfur kostur. Núna sé brúin númer eitt og göngin talin raunhæfur kostur.

„Næstu skref eru að hlusta eftir því, bæði þeim spurningum sem vakna við yfirferð málsins og leita svara við þeim,“ segir hann og bendir á að samráð þurfi að eiga sér stað, sérstaklega við fólkið sem býr nálægt Sundabraut sem mun verða fyrir mestum áhrifum. Fara þurfi í heildarmat á kostnaði og ábata, svokallaða félagshagfræðilega greiningu, og meta hliðarkostnað, meðal annars á hafnarsvæðinu og fyrir íbúabyggð. Eftir það þurfi ríkið og borg að fara yfir næstu skref.

Dagur segir skýrsluna sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti í gær vera vel unna og góðan grunn fyrir samtalið sem núna þurfi að eiga sér stað.

Minni áhrif brúar en í fyrri útfærslum

Spurður hvort það hafi komið honum á óvart að Sundabrú hafi verið metin hagkvæmari en jarðgöng í skýrslunni segir hann „já og nei“.

„Það sem er nýtt í þessu varðandi útfærsluna er að í staðinn fyrir að brúin taki land á hafnarkantinum, ef þannig má að orði komast, heldur hún fullri hæð yfir öllu hafnarsvæðinu alveg upp að Sæbraut á móts við Holtaveg. Þar með hefur hún miklu minni áhrif á hafnarsvæðið og Vogabyggð og svæðin þarna í kring heldur en fyrri útfærslur,“ greinir hann frá en segir ekki þar með sagt að brúin hafi engin áhrif á hafnarsvæðið. „Það þarf að skoða betur með þeim sem nýta Sundahöfnina, hver þau áhrif eru, hvaða mótvægisáhrifa er hugsanlega hægt að grípa til og hvað þær kosta.“

Starfshópurinn telur að kostnaður við brúarleið væri lægri, brú henti …
Starfshópurinn telur að kostnaður við brúarleið væri lægri, brú henti betur fyrir alla ferðamáta og almenningssamgöngur og að ný Sundabraut á brú bæti samgöngur innan höfuðborgarsvæðisins og til og frá borginni. Graf/mbl.is

Veggjöld ekki útfærð 

Talað er um í skýrslunni að Sundabrú yrði fjármögnuð með veggjöldum. Dagur segir mjög lítillega vera vikið að þeim í skýrslunni og nefnir að veggjöld hafi ekki verið útfærð fyrir Sundabraut. „Ég hef skilið það svo að þau eigi að fjármagna framkvæmdina að fullu.“ Spurður hvað honum finnst um það kveðst hann telja að allir hafi verið opnir fyrir því, ef það gengur upp. Greiningarvinna þess efnis sé samt að einhverju leyti eftir.

Aldrei hefur verið gert ráð fyrir því að borgin komi beint að fjármögnun Sundabrautar, að sögn Dags. Borgin komi aftur á móti að skipulagsþættinum og mati á ýmsum þáttum, ásamt málefnum hafnarinnar í gegnum Faxaflóahafnir. „Við erum líka fulltrúar íbúanna sem bæði geta notið góðs af betri samgöngum en geta líka orðið fyrir neikvæðum áhrifum vegna stórra framkvæmda. Þetta þarf allt að hafa í huga í næstu skrefum,“ segir borgarstjórinn.

Framkvæmdir við Sundabraut geta hafist árið 2025 og lokið 2029 …
Framkvæmdir við Sundabraut geta hafist árið 2025 og lokið 2029 til 2030. Ljósmynd/Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Þörf á samráði við íbúasamtök 

Hann segir að fyrirhuguð Sundabraut hefði í för með sér töluverða breytingu fyrir samgöngumál í borginni og gerir ráð fyrir því að skýrslan verði kynnt í borgarráði í næstu viku. Í kjölfarið verði fjallað um hana í skipulags- og samgönguráði. Ræða þurfi við íbúasamtök Grafarvogs og Laugardals.

„Í kjölfar ítarlegs samráðs fyrir allmörgum árum síðan sammæltust allir um að Sundabraut í göngum væri fyrsti kostur. Ég held að það séu allir sammála um það að ef borgarstjórn ætlar að breyta því þá þarf að eiga sér stað samráð og samtal um það. Ég held að þessi skýrsla sé ágætisgrunnur í því samtali,“ greinir hann frá.

Alþjóðleg samkeppni vegna brúar

Ertu bjartsýnn á að Sundabraut verði núna að veruleika?

„Alla vega finnst mér skipta mjög miklu máli að þessi vinna hafi verið unnin. Núna sé hægt að setjast yfir þetta og taka umræðuna við alla hlutaðeigandi. Það hefur verið bent á það í umræðunni að ef það væri brú væri hún mjög áberandi í umhverfinu, þannig að það skiptir líka mjög miklu að fara með það í alþjóðlega samkeppni því þetta yrði eitt af kennileitum borgarinnar. Það er að mörgu að hyggja,“ segir Dagur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert