Ekki var talinn vera grundvöllur fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi yfir karlmanni á sextugsaldri sem grunaður er um að hafa skotið á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og var því ekki farið fram á slíkt. Maðurinn losnar því úr gæsluvarðhaldi klukkan fjögur í dag.
Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali við mbl.is, en Vísir greindi fyrst frá.
Maðurinn hefur þó enn stöðu grunaðs í málinu, sem er á borði héraðssaksóknara. Upphaflega voru tveir menn handteknir og höfðu báðir stöðu grunaðs manns þó að gæsluvarðhalds hafi ekki verið krafist yfir öðrum þeirra, en nú er síðari maðurinn ekki talinn tengjast málinu og hefur ekki stöðu grunaðs manns.