Bað Loga að gæta orða sinna um starfsfólk SÍ

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tókust á …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tókust á um rekstur hjúkrunarheimila á Alþingi í dag. Ljósmynd/Skjáskot

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tókust á í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag um það sem Logi „skortstefnu ríkisstjórnarinnar“ í rekstri hjúkrunarheimila. Svandís var ósátt með „gífuryrði“ Loga og bað hann að gæta að sér.

Sem fyrr segir snerist fyrirspurn Loga um rekstur hjúkrunarheimila en hann hóf mál sitt á að segja að núverandi ríkisstjórn hefði fjórum sinnum samþykkt fjárlög þar sem rekstur slíkra heimila hafi verið „ævinlega vanfjármagnaður“.

Sveitarfélög hafi lengi lýst áhyggjum af stöðunni og allar tillögur Samfylkingarinnar til úrbóta hafi verið felldar. Ríkinu bæri að standa undir kostnaði af starfsemi hjúkrunarheimila en um þriðjungur þeirra væri rekin af sveitarfélögum með samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

„Afleiðingin af þessari skortstefnu ríkisstjórnarinnar síðustu ár er að sveitarfélög hafa þurft að greiða milljarða á milljarða ofan til að tryggja öldruðum mannsæmandi þjónustu í heimabyggð. Sem ríkið ber þó ábyrgð á,“ sagði Logi og nefndi dæmi.

Akureyri hefði þannig þurft að greiða hátt í tvo milljarða með hjúkrunarheimilum síðustu ár og að fjögur sveitarfélög – Akureyri, Vestmannaeyjabær, Höfn og Fjarðarbyggð – hafi neyðst til að segja upp samningum og fleiri sveitarfélög íhugi stöðu sína.

SÍ reyni að neyða sveitarfélögin til áframhaldandi reksturs

„Ekki verður betur séð en að Sjúkratryggingar Íslands reyni að neyða sveitarfélögin fjögur, sem hafa sagt upp samningum, til að halda rekstri áfram án nægilegs fjármagns. Ráða- og viðbragðsleysi stofnunarinnar í þessu máli virðist ömurlegt,“ sagði Logi ákveðinn og spurði ráðherra hvort henni þætti þetta ásættanleg vinnubrögð.

Svandís benti Loga á að hún hefði skipað vinnuhóp í lok síðasta sumars sem hefði það hlutverk að greina raungögn um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila. Það hafi verið gert vegna stefnu ríkisstjórnarinnar um að styrkja rekstrargrunn hjúkrunarheimila auk þess sem það hafi verið í samræmi við samkomulag milli SÍ, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Svandís tók fram að Gylfi Magnússon, prófessor og fyrrum ráðherra, færi fyrir hópnum og niðurstöðu hans væri að vænta innan fáeinna vikna, áður en hún gerði orðanotkun Loga að umfjöllunarefni.

Logi hafi lagt lykkju á sína pólitísku leið

„Ég neita því ekki að það eru mér ákveðin vonbrigði að þrátt fyrir starfsemi þessa hóps og þrátt fyrir þau heilindi sem eru afar mikilvæg í vinnu af þessu tagi þá skuli undirtónninn í samskiptum aðila opinberlega og á vettvangi stjórnmálanna snúast um gífuryrði, sagði hún og bætti við:

„Það er algjörlega á hreinu að ég sem heilbrigðisráðherra legg mikla áherslu á það að það komi sannfærandi og viðunandi gögn út úr þessari vinnu sem hægt sé að nýta og ég bið háttvirtan þingmann að gæta að því að vera ekki að leggja lykkju á sína pólitísku leið til þess að halla hér orði á ágætt starfsfólk Sjúkratrygginga Íslands.“

Logi harðneitaði fyrir að hafa hallað á starfsfólk SÍ og virtist ekki skemmt yfir ummælum Svandísar þegar hann kom upp í pontu að öðru sinni. Sagði hann að þegar sveitarfélög þyrftu að leggja fé í rekstur hjúkrunarheimila væri verið að taka af öðrum málaflokkum, þ.á.m. börnum og unglingum. „Við þetta verður ekki unað hæstvirtur heilbrigðisráðherra,“ sagði hann Logi hvass áður en hann gekk úr pontu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert