Landspítalinn harmar óvissu vegna leghálsskimana

Undir yfirlýsinguna skrifa Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans og Óskar Reykdalsson, …
Undir yfirlýsinguna skrifa Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans og Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landspítalinn sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem viðurkennt var að yfirfærsla verkefna frá Krabbameinsfélagi Íslands yfir til Heilsugæslunnar, Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri, hafi ekki verið hnökralaus. 

Í byrjun yfirlýsingarinnar er sagt frá því að öflug brjóstamiðstöð muni opna innan skamms á Landspítala en umfangsmiklar breytingar hafi verið gerðar á framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum yfir áramótin.

„Því miður ekki hnökralaus“

Því næst taka Heilsugæslan og Landspítalinn fram, í ljósi umræðu síðustu daga, að „aðstandendum verkefnisins þykir mjög miður að óvissa hafi skapast um þessa mikilvægu þjónustu“, við slíkt verði ekki búið og nú keppist aðilar verkefnisins við að bæta þar úr með fjölbreyttum hætti.

„Íslensk heilbrigðisþjónusta stendur saman að baki þessu heildarverkefni, sem snýr að vandasamri og viðkvæmri yfirfærslu margvíslegra verkefna frá Krabbameinsfélagi Íslands yfir til Heilsugæslunnar, Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. Yfirfærslan hefur því miður ekki verið hnökralaus, ýmissa hluta vegna, og skapað bæði áhyggjur og óöryggi í samfélaginu,“ segir þar einnig.

Samið við danska rannsóknarstofu með gæðin að leiðarljósi

Miklar breytingar voru gerðar á skipulagi, stjórn og framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum um síðustu áramót samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra, sem byggja á tillögum frá embætti landlæknis og skimunarráði, að því er segir í yfirlýsingunni.

Tók þá Landspítali, í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri, að sér þá framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í brjóstum og sérskoðun á brjóstum og leghálsi en kom það í hlut heilsugæslunnar um allt land að annast framkvæmd skimana fyrir krabbameini í leghálsi.

Heilsugæslan ákvað í kjölfarið að semja við danska rannsóknastofu um sýnagreiningu en segir í yfirlýsingunni að í öllum þessum verkefnum hafi gæði þjónustunnar verið höfð að leiðarljósi og í hvívetna leitast við að tryggja heilsu og öryggi skjólstæðingahópsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert