Óttast að aðrar konur lendi í því sama

Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.
Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts. mbl.is/Árni Sæberg

Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, óttast að aðrar konur lendi í því sama og hún þegar hún var ekki boðuð í endurkomu á tilætluðum tíma í febrúar eftir að hún greindist með vægar frumubreytingar í reglulegri leghálsskimun hjá Krabbameinsfélagi Íslands.

Eftir að hún fór í skimunina í ágúst sl. var hún látin vita í svarbréfi frá félaginu að hún ætti að koma í endurkomu eftir sex mánuði til að fylgjast með stöðunni og að hún myndi fá áminningu um að bóka tíma. Áminningin kom aftur á móti ekki frá samhæfingarstöð krabbameinsskimana eins og hún átti að gera.

Hulda hafði samband við ráðgjafa á heilsuvera.is í rafrænu spjalli. Hann hafði enginn svör við því hvers vegna hún hefði ekki verið boðuð í endurkomu og benti henni á að hafa samband við heilsugæsluna sína til að bóka tíma.

„Það er ekkert mál fyrir mig að bóka tíma en ég hef áhyggjur af því í hvaða farvegi þessar endurkomur eru. Ef ég er að falla á milli í kerfinu hljóta að vera aðrar konur sem eru ekki heldur kallaðar inn,“ segir Hulda við Morgunblaðið.

Hún bætir við að til þess að árangur geti náðst með skimun þurfi fyrirkomulag við endurkomur að vera í lagi. Þær þurfi að vera með reglubundnum hætti, sérstaklega þegar um er að ræða konur sem hafa greinst með frumubreytingar.

Mikil umræða hefur verið undanfarið um að krabbameinsskimanir hafi verið færðar frá Krabbameinsfélaginu yfir til heilsugæslunnar og Landspítalans. „Þetta hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig, ég held við getum öll verið sammála um það. Þetta er lýðheilsumál sem varðar okkur öll og við þurfum að hafa í lagi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert