Afhenda heilbrigðisráðherra undirskriftalista

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls eru um 13 þúsund manns í facebookhópnum „Aðför að heilsu kvenna“ en þar er safnað undirskriftum þar sem þess er krafist að greining sýna vegna skimunar fyrir leghálskrabbameini verði framkvæmd á Íslandi og öryggi og heilsa kvenna verði tryggð með ábyrgum hætti. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu hópsins en síðan var stofnuð fyrir 15 dögum.

„Málið hefur verið mikið í þjóðfélagsumræðunni undanfarna daga og vikur og megn ónægja er meðal kvenna með þær breytingar sem gerðar voru á fyrirkomulaginu nú um áramótin.

Hópurinn telur þessar breytingar ekki tryggja markmið um öryggi, gæði og mannvirðingu enda standa konur frammi fyrir því nú að sýni eru send til Danmerkur til greiningar, biðtími eftir niðurstöðum úr greiningum er allt að fimm mánuðir og biðtími eftir sýnatökum á heilsugæslustöðvum sem áður fóru fram hjá Krabbameinsfélaginu er allt of langur.

Á sama tíma liggja fyrir upplýsingar, ályktanir læknafélaga, blaðagreinar og yfirlýsingar m.a. forsvarsmanna innan Landspítalans sem staðfesta að verkefnið hefði vel mátt leysa hér innanlands og komast þannig hjá óþarfa flækjustigi. Fyrir er bæði tækjabúnaður og mannafli í landinu til að tryggja einmitt öryggi, gæði og mannvirðingu gagnvart þeim konum sem bíða oft í kvíða og angist eftir niðurstöðum greininga,“ segir í tilkynningu en Svandís Svavarsdóttir  heilbrigðisráðherra tekur á móti undirskriftum hópsins síðdegis í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert