Sá að konur fundu til kvíða eða ótta

Erna Bjarnadóttir afhendi Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra undirskriftirnar 5450 í dag.
Erna Bjarnadóttir afhendi Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra undirskriftirnar 5450 í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsvarsfólk hópsins sem heldur úti Facebook-hópnum „Aðför að heilsu kvenna“, afhenti Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra 5.450 undirskriftir á lista þar sem skorað er á ráðherra að „stöðva aðför að heilsu kvenna“.

Greining leghálssýna hefur verið flutt úr landi, þvert á ráðleggingar sérfræðinga. Við förum fram á að þessu verði breytt og að öryggi og heilsa kvenna verði tryggð,“ segir í yfirlýsingu hópsins á undirskriftalistanum þar sem stjórnvöld eru hvött til að tryggja öryggi og heilsu kvenna sem annarra með ábyrgum hætti. 

Í hóp á Facebook sem stofnaður var fyrir umræður um fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi á skimun fyrir leghálskrabbameini eru um 12.700 manns. 

Við afhendingu undirskriftanna.
Við afhendingu undirskriftanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fann til með konum sem biðu svara

„Það sem dreif mig áfram er að ég horfði á það á Facebook að konur voru komnar í einhvers konar kvíða eða ótta yfir því hvað hefði orðið um þeirra sýni, af hverju þær væru að bíða svona eftir niðurstöðum. Ég vissi hvernig er að bíða eftir niðurstöðum úr svona máli,“ segir Erna Bjarnadóttir sem stóð fyrir stofnun umræðuhópsins á Facebook og undirskriftasöfnuninni.

„Og ég fann bara svo til með þeim. Ég stofnaði hópinn til að fá einhvern til að ræða við mig hvað væri í gangi. En svo var þetta bara stærra mál og það dreif mig áfram að fá sannleikann fram og að það yrðu gerðar úrbætur sem þarf að gera.“

Hverju vonar þú að undirskriftasöfnunin skili?

„Fyrst og fremst vil ég bara að það verði farið yfir það að það sé örugglega verið að gera það besta sem hægt er fyrir íslenskar konur. Þeir hnökrar sem hafa verið á þjónustunni benda til þess að eitthvað megi betur fara. Þetta verkefni hefur alla vega vakið athygli á þessu máli, sem greinilega þurfti, það vantaði meiri upplýsingar til notenda þjónustunnar.

Þarna hefur skapast vettvangur fyrir konur til að deila sinni reynslu og koma á framfæri því sem þær hafa upplifað, sem er vel. Það var greinilega eftirspurn eftir svona vettvangi, sem varð til þess að þessi umræða fékk byr undir báða vængi.“

Erna Bjarnadóttir, stofnandi umræðuhóps um breytingar á fyrirkomulagi skimana, heldur …
Erna Bjarnadóttir, stofnandi umræðuhóps um breytingar á fyrirkomulagi skimana, heldur tölu við afhendinguna. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert