Fyrir liggur að úthaldsdagar varðskipsins Þórs verða töluvert fleiri á þessu ári en áætlanir gerðu ráð fyrir vegna þeirrar stöðu sem upp er komin vegna alvarlegrar bilunar í Tý. Þetta segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.
Áhöfnin á Tý hefur þegar verið færð yfir á varðskipið Þór og er nú við eftirlitsstörf á miðunum við Ísland. Næstu vikur verður varðskipið Þór því eina skip Landhelgisgæslunnar sem gert verður út til eftirlitsstarfa. Áformað var að Þór yrði tekinn í slipp í sumar en óljóst er hvenær geti orðið af því. Verið er að kanna hvort varðskipið Týr geti að einhverju leyti gagnast í sumar meðan beðið er eftir nýja varðskipinu Freyju, upplýsir Ásgeir.
Starfshópur þriggja sérfræðinga mun fljótlega hefja vinnu að undirbúningi kaupa á nýju varðskipi. Horft er til þjónustuskips í olíuiðnaðinum.