Svar barst eftir sjónvarpsviðtal

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Landspítalinn útlistar …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Landspítalinn útlistar í bréfi til ráðherra hvernig aðkoma spítalans að greiningu sýna úr leghálsskimun gæti litið út. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra barst í gærkvöldi svar frá Landspítalanum um möguleika sjúkrahússins á að annast greiningu sýna úr leghálsskimun, sem framkvæmd er á heilsugæslum landsins.

Sem stendur annast danskt sjúkrahús greiningu sýnanna, enda útvistaði ráðherra verkefninu þangað eftir að stjórnendur Landspítalans kváðust ekki sjá ástæðu til að sækjast eftir því að sinna þessu verkefni þegar þeim var boðið það síðasta sumar.

„Þegar ég sá síðan að yfirlæknir á spítalanum teldi að spítalinn gæti í raun vel gert þetta og ég heyrði forstjóra spítalans ekki mótmæla því, sendi ég aftur inn erindi til spítalans og spyr hvort staðan sé önnur en stóð í svarbréfinu. Í gær barst mér síðan svar og nú erum við að skoða þetta,“ segir Svandís í samtali við mbl.is.

Fara yfir málið

Í svari spítalans kemur fram hvernig þjónusta Landspítalans gæti litið út í þessu máli og hvaða kostnað það hefði í för með sér að verkefnið yrði fært til þeirra. Ráðherra kveðst ekki enn hafa haft ráðrúm til að meta innihald bréfsins en skoðar nú hvort réttast sé að færa verkefnið til spítalans. Svarið barst enda seint í gærkvöldi, eftir að Svandís hafði rætt málið í Kastljósi.

Greining sýna úr leghálsskimun var upphaflega færð til danska sjúkrahússins eftir að Krabbameinsfélagið hætti að annast greininguna. Danirnir sjá um þetta á þessari stundu enda baðst Landspítalinn undan því síðasta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert