Fornleifafræðingur flýtir sér á vettvang

Oddgeir Isaksen fornleifafræðingur á flugvallarsvæði Landhelgisgæslunnar í dag.
Oddgeir Isaksen fornleifafræðingur á flugvallarsvæði Landhelgisgæslunnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Odd­geir Isak­sen, forn­leifa­fræðing­ur hjá Minja­stofn­un, er á leið með þyrlu á gossvæðið í Geld­inga­dal í Fagra­dals­fjalli, að kanna hvort raun­veru­leg um­merki séu á staðnum um dys land­náms­manns­ins Ísólfs. Þetta er síðasti séns, enda meint dys á leið und­ir hraun.

Dysj­ar Ísólfs á Ísólfs­skála er getið í göml­um ör­nefna­skrám og sagt að Ísólf­ur hafi viljað láta grafa sig í daln­um. „Vildi hann vera graf­inn, þar sem geld­ing­arn­ir hans hefðu það sem bezt,“ eins og þar seg­ir.

Odd­geir seg­ir í sam­tali við mbl.is að þess­ar forn­leif­ar séu í mik­illi hættu vegna hraun­flæðis­ins, sem stefn­ir að hinni meintu dys. Það sem Odd­geir vill gera er að mæla dys­ina upp, mynda hana og reyna að meta hvort þar hafi raun­veru­lega verið gröf eða ekki.

Á myndinni er dysin auðkennd og allt lítur út fyrir …
Á mynd­inni er dys­in auðkennd og allt lít­ur út fyr­ir að hún fari að lok­um und­ir hraun. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Fengu ekki að fara í Geld­inga­dal fyr­ir gos

Al­gengt er að ör­nefni, sem vísa á graf­ir og kennd eru við ákveðna land­náms­menn, reyn­ist vera nátt­úru­smíð frek­ar en raun­veru­leg­ar dysj­ar eða kuml. Hins veg­ar er al­gengt að kumla- og dysja­ör­nefni reyn­ist geyma raun­veru­leg­ar minj­ar – sem gæti verið til­fellið hér.

Af hraun­flæðis­spám að dæma stefn­ir kvik­an að dys­inni. „Það er auðvitað leiðin­legt en þetta sýn­ir bara mik­il­vægi forn­leif­a­skrán­ing­ar, því að þarna er menn­ing­ar­arf­ur sem get­ur bara horfið hvenær sem er. Hann er líka að gera það víða, til dæm­is þar sem hann hverf­ur vegna land­brots við sjó,“ seg­ir Odd­geir.

Sér­fræðing­ar frá Minja­stofn­un hafa í þess­ari jarðskjálfta­hrinu farið víða um svæðið og mælt upp skráðar minj­ar á mesta hættu­svæðinu. Fyr­ir gosið fékkst þó ekki heim­ild til að fara inn í Geld­inga­dal vegna gos­hætt­unn­ar, þannig að nú verður að sæta lagi á síðustu stundu.

Í ör­nefna­skrá Ara Gísla­son­ar seg­ir um dys­ina um­ræddu: „Á aust­an­verðu Fagra­dals­fjalli er hóll, sem heit­ir Stór­hóll, rétt vest­ur af Nátt­haga­sk­arði. Norður af hon­um er laut og svo djúp­ir dal­ir með gras­flöt, nefnd­ir Geld­inga­dal­ir. Þar er þúst á flöt, og er sagt, að þar sé Ísólf­ur á Skála graf­inn [...] Vildi hann vera graf­inn, þar sem geld­ing­arn­ir hans hefðu það sem bezt.“

Hægra megin við kvikuna má sjá dysina á grasfletinum.
Hægra meg­in við kvik­una má sjá dys­ina á gras­flet­in­um. Skjá­skot/​Rúv
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert