Karlmaður látinn eftir líkamsárás

Þrítugur karlmaður lést í dag á Landspítala af áverkum sem hann hlaut þegar ráðist var á hann fyrir utan heimili hans í Kópavogi í gær.

Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Ekki talið tengjast skipulagðri glæpastarfsemi

Aðspurður segir hann að ekki sé grunur um að málið tengist manndrápinu sem framið var í Rauðagerði fyrr á árinu.

Þá er málið ekki talið tengjast skipulagðri glæpastarfsemi.

Maðurinn, sem var íslenskur, var úrskurðaður látinn síðdegis í dag.

Þrír handteknir vegna málsins

Í tilkynningu frá lögreglu segir að maðurinn hafi verið fluttur á Landspítala eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás í Kórahverfinu í Kópavogi í gærmorgun.

„Tilkynning um málið barst lögreglu kl. 8.51 að morgni föstudagsins langa, en málsatvik voru í fyrstu mjög óljós. Þrír hafa í dag verið handteknir vegna málsins, en rannsóknin er á frumstigi og því er ekki hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.“

Ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir þremenningunum er sögð ekki liggja fyrir. 

Málið er rannsakað sem manndráp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert