Leit er hafin að nýju varðskipi Íslendinga, en sem kunnugt er mun það fá nafnið Freyja.
Ríkiskaup hafa fyrir hönd Landhelgisgæslunnar auglýst eftir áhugasömum seljendum slíkra skipa. Auglýsingin er birt á EES-svæðinu og er skilafrestur til 13. maí næstkomandi.
Fram kemur í auglýsingu Ríkiskaupa að verið sé að leita að þjónustuskipi eða sambærilegu skipi. Það má ekki vera eldra en frá árinu 2005. Það skal vera 74-95 metrar að lengd og lágmarksganghraði skal vera 15 sjómílur á klukkustund. Þriggja manna starfshópur undirbýr kaupin og miðast ferlið við að varðskipið Freyja verði fullbúið og komið til Íslands snemma í haust.
Þegar varðskipið Týr var tekið í slipp í janúar sl. komu í ljós alvarlegar bilanir. Óraunhæft var talið að fara í kostnaðarsamar viðgerðir og því samþykkti ríkisstjórnin tillögu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra þess efnis að þegar verði hafist handa við kaup á nýlegu skip, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.