Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var ekki sátt við tilsvör Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra ef marka má frammíköll hennar á meðan á svari Katrínar stóð í þingsal í dag. Katrín var til svara vegna óundirbúinna fyrirspurna við upphaf þingfundar.
Helga spurði forsætisráðherra út í breytingar á fyrirkomulagi skimana fyrir leghálskrabbameini og sagði:
„Tilfærslan í heild er með slíkum eindæmum að mánuðum saman hefur heilsu kvenna verið stefnt í hættu,“ sagði hún og óskaði efir svörum frá Katrínu sem leiðtoga ríkisstjórnarinnar.
„Nú er hæstvirtur forsætisráðherra leiðtogi þessarar ríkisstjórnar og þótt málaflokkurinn heilbrigðismál sé ekki á hennar borði get ég ekki annað á þessum tímapunkti en spurt hana hvort hún treysti ekki orðum okkar færustu sérfræðinga sem hafa mánuðum saman, síðast í morgun, sent það ákall til stjórnvalda að breyta um þennan kúrs og leiðrétta þessi augljósu mistök sín,“ sagði Helga.
Katrín gerði tilraun til að svara fyrirspurn Helgu en nokkuð var um frammíköll Helgu.
„Það er náttúrlega beinlínis hlægilegt [Gripið fram í] að tala um forystuleysi forsætisráðherra í þessu máli [Helga grípur fram í: Svaraðu spurningunni] og segir meira [Helga grípur fram í: Svaraðu spurningunni þá] um hæstvirtan þingmann.
Það liggur algjörlega fyrir, ég er búin að fara hér yfir það, að það er von á skýrslu sem unnin er af óháðum sérfræðingi að beiðni Alþingis, [Helga grípur fram í: Treystið þið ekki sérfræðingum?] það er von á henni í þessari viku.“
Katrínu var ekki skemmt og óskaði hún eftir að forseti bæði um ró í salinn. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, bað þá þingmenn um að gefa Katrínu frið til að svara.
Þess skal getið að kveðið er á í þingsköpum Alþingis um að þingmaður skuli mæla úr ræðustól. Þá er kveðið á um að ræðumaður skuli ávarpa forseta þingsins en ekki neinn þingmann beint.