Gagnrýnir hvernig krabbameinsskimanir voru færðar

Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknir.
Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn

Vert er að gagnrýna hversu stirðlega og lengi það tók að færa rannsóknir á leghálssýnum, eftir að ljóst varð að leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands myndi hætta sínum rannsóknum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Haraldar Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknis, um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. Skýrslan kom út í dag.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar óskaði eftir því þann 2. mars að skýrslan yrði gerð, ásamt 25 öðrum þingmönnum. Rúmum tveimur mánuðum síðar, þann 10. maí, féllst Haraldur á að vinna skýrsluna. Síðan er liðinn mánuður.

Fyrirvarar gerðir við yfirtöku rannsóknanna

Í fyrsta lagi óskuðu þingmennirnir eftir því að upplýst yrði um forsendur að baki þeirri ákvörðun að semja við erlenda stofu um greiningar á sýnum.

Í skýrslunni bendir Haraldur á að upphaflega hafi Landspítalinn ekki óskað eftir því að taka að sér frumurannsóknir frá leghálssýnum í tengslum við skimanir fyrir krabbameinum, sem séu annars eðlis en sýni frá sjúklingum með einkenni.

„Síðar um haustið 2020 var gefið til kynna að LSH tæki að sér verkefnið fengi hann boð um það. Margir fyrirvarar voru gerðir við yfirtöku þessara rannsókna sem leiddu til þess að samið var við erlenda rannsóknarstofu um rannsóknir á leghálssýnum enda tíminn naumur þar til rannsóknarstofa LKÍ hætti störfum,“ segir í skýrslunni.

„Til viðbótar þessu fóru fram umræður um gæðakröfur sem gera þarf til rannsóknarstofa sem stunda skimanir fyrir leghálskrabbameini. Þáttur Leitarstöðvar KÍ og þáttaskil í starfsemi hennar, sem lauk áður en samningstími hennar rann út, kann að skýrast af alvarlegu atviki sem tengdist starfseminni og tekið var til rannsóknar hjá embætti landlæknis. Atvikið varpar ljósi á hversu viðkvæmar litlar rannsóknarstofur eru og hversu mikilvægt er að viðhalda gæðastaðli.“

Fundur. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lengst til hægri. Haraldur lengst til …
Fundur. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lengst til hægri. Haraldur lengst til vinstri. mbl.is/Eggert

Ekki formlegt boð fyrr en 15. mars

Gagnrýnivert sé, eins og áður sagði, hversu stirðlegt og langvinnt yfirtökuferli rannsókna á leghálssýnum hafi verið.

„Á endanum var þó tryggt að rannsóknarstofa sjúkrahússins í Hvidovre tæki yfir rannsóknir á skimunarsýnum frá 1. janúar 2021,“ skrifar Haraldur.

Því næst tekur hann fram að fyrsta formlega tilboð Landspítalans, um að taka að sér rannsóknir á sýnum frá leghálsskimun, hafi borist ráðuneytinu 15. mars á þessu ári.

Ráðuneytið hafi þá borið tilboðið undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem hafði það hlutverk að leita tilboðanna. Heilsugæslan hafi því næst farið fram á að embætti landlæknis legði mat á tilboð LSH, sem komst að þeirri niðurstöðu að spítalinn væri vel í stakk búinn til að sinna HPV-rannsóknum en kanna þyrfti nánar getu hans til að sinna frumurannsóknum með fullnægjandi hætti.

Vandamál í hugbúnaði og upplýsingakerfum

Í öðru lagi vildu þingmennirnir vita hver yrðu áhrif á aðgengi að sýnum, fyrir sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins hérlendis og á kostnað við greiningu leghálssýna.

„Vandséð er að flutningur rannsókna á leghálssýnum úr landi ætti að hafa áhrif á aðgengi sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins að niðurstöðum rannsóknanna eftir að þær berast ef skimunarmiðstöð HH starfar eðlilega. Tíminn frá sýnatöku þar til svar hefur borist um niðurstöðu er langur eða 2-3 mánuðir,“ segir í skýrslunni.

Tafirnar eru sagðar eiga að stórum hluta rót sína að rekja til vandamála sem tengjast hugbúnaði og upplýsingakerfum heilsugæslunnar.

Hafi ekki teljandi áhrif á sérhæfð störf

„Unnið er að því að flýta því ferli. Gagnrýna má hversu lengi það hefur tafist þó að alltaf megi búast við byrjunarörðugleikum. Kostnaður við greiningu leghálssýna var metinn lægstur hjá Hvidovre-sjúkrahúsinu á sínum tíma miðað við LSH og Karólínska sjúkrahúsið. Nauðsynlegt verður að fá nýtt kostnaðarmat á tilboði LSH á rekstri rannsóknarstofu fyrir leghálssýni eftir að tillit hefur verið tekið til athugasemda landlæknis frá því í maí 2021.“

Ekki verði þá séð að flutningur rannsókna á leghálssýnum úr landi, sem tekin séu til rannsókna vegna krabbameinsskimunar á Íslandi, hafi nein teljandi áhrif á sérhæfð störf við greiningu sýna vegna krabbameinsskimunar á Íslandi.

„Áhrif á sérfræðiþekkingu hérlendis við þessar breytingar eru lítil sem og áhrif á aðra rannsóknar- og greiningarvinnu hérlendis litlar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert