Á þriðja tug kvartana til umboðsmanns

Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis.
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert

Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, segir að á þriðja tug kvartana og ábendinga vegna breytinga á fyrirkomulagi leghálsskimananna hafi borist embættinu. 

Hann segir að þar sem Alþingi hafi málið til skoðunar muni umboðsmaður ekki taka málið til athugunar að eigin frumkvæði að svo stöddu. Það sé viðtekin venja að umboðsmaður fjalli ekki um mál sem nefndir Alþingis hafi til skoðunar.

„Nú liggur fyrir þessi skýrsla sem heilbrigðisráðherra lagði fyrir Alþingi. Áfram verður þó fylgst með málinu af hálfu umboðsmanns. Þetta eru annars vegar kvartanir frá konum sem telja að hugsanlega hafi verið brotið á þeirra réttindum sem sjúklinga og hins vegar ábendingar meira almenns eðlis um ýmislegt sem betur má fara,“ segir Skúli. 

Hann ítrekar að það sé í sjálfu sér ekki umboðsmanns að fjalla um ýmsa stefnumótun eða skipulag innan stjórnsýslunnar svo framarlega sem réttindi borgaranna séu tryggð.

Hann segir ljóst að verið sé að vinna í málinu á vegum stjórnsýslunnar, en áfram verði fylgst með gangi mála, úrbótum sem unnið er að og ákvörðun tekin síðar um hugsanlegt framhald hjá umboðsmanni.

Nýti sér fyrst úrræði innan stjórnsýslu

„Ég held að það liggi fyrir að það sé verið að vinna að umbótum. Það er kannski ekki alveg ljóst hvernig þær muni takast. Umboðsmaður fylgist áfram með, hlustar á ábendingar og fjallar um kvartanir sem koma en umboðsmaður Alþingis er kannski ekki rétta stofnunin til að stíga inn í og stíga á tær þeirra stofnana sem eru þrátt fyrir allt að vinna að sínum verkefnum,“ segir Skúli.

„Að því er varðar einstaka kvartanir myndi það teljast hinn eðlilegi farvegur að fólk nýtti sér fyrst úrræði sem það hefur innan stjórnsýslunnar áður en það kemur til umboðsmanns Alþingis,“ bætir hann við.  

Hann segir allar kvartanir og ábendingar lesnar af alvöru og umboðsmaður fylgist áfram með þróun mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert