Niðurstaða MDE í takt við væntingar

Kjartan Bjarni Björgvinsson kynnir skýrslu rannsóknarnefndarinnar um sölu á 45,8% …
Kjartan Bjarni Björgvinsson kynnir skýrslu rannsóknarnefndarinnar um sölu á 45,8% hlut í Búnaðarbank­an­um í janú­ar 2003. mbl.is/Golli

Mannréttindadómstóll Evrópu vísaði í dag frá kæru Ólafs Ólafssonar vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu Hauck og Aufhauser að einkavæðingu Búnaðarbankans. Kjartan Bjarni Björgvinsson, sem gengdi formennsku rannsóknarnefndarinnar, segir niðurstöðuna í takt við væntingar.

„Þetta er í sjálfu sér ánægjulegt og í takt við væntingar miðað við fyrri framkvæmd dómstólsins,“ segir Kjartan. 

Ólafur kærði málsmeðferð rannsóknarnefndarinnar árið 2017 og taldi að umgjörð og málsmeðferð nefndarinnar hefði í raun falið í sér sakamál á hendur honum. Dómstóllinn hafnaði þessum rökum Ólafs með afgerandi hætti. 

„Rannsóknarnefnd Alþingis var ekki að stunda neina sakamálarannsókn á hendur kæranda í þessu máli, það er alveg afgerandi niðurstaða. Og ekki að brjóta á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is, spurður út í niðurstöðuna. 

Hlutverk rannsóknarnefnda að upplýsa um sannleikann 

Hefði niðurstaða MDE verið Ólafi í hag hefði það getað haft umtalsverð áhrif á starf rannsóknarnefnda líkt og það þekkist í dag að mati Kjartans. 

„Ef það hefði verið komist að þeirri niðurstöðu í þessu máli held ég að það sé alveg einsýnt að sú skipan rannsóknanefnda og meðferð þeirra sem við höfum fylgt hérna um árabil hefði verið í algjöru uppnámi. Við hefðum aldrei séð rannsóknanefndir í þeirri mynd sem við höfum þekkt hingað til ef niðurstaðan hefði verið kæranda í hag,“ segir Kjartan. 

Kjartan segir að það hafi verið talið samfélagslega mikilvægt að hafa úrræði á borð við rannsóknarnefndir. 

„Kerfið sem við búum við hér er svipað og t.d. í Danmörku, og í Bretlandi er svipuðu úrræði beitt. Það hefur verið talið að það sé samfélagslega mjög mikilvægt að það sé til úrræði til að rannsaka mál sem varða samfélagið og fara úrskeiðis með einhverjum hætti. Þessar svokölluðu sannleiksnefndir, sem er í rauninni ekki ætlað að kveða eitthvað á um ábyrgð einstaklinga, hafa fyrst og fremst það hlutverk að upplýsa hvað gerðist,“ segir Kjartan. 

Í niður­stöðu sinni komst rann­sókn­ar­nefnd­in að því að þýski bank­inn Hauck & Auf­häuser var aldrei í reynd fjár­fest­ir í Búnaðarbank­an­um þegar 45,8% hlut­ur rík­is­ins í hon­um var seld­ur í janú­ar 2003, ólíkt því sem haldið var fram allt frá upp­hafi. Var það af­drátt­ar­laus niðurstaða rann­sókn­ar­nefnd­ar Alþing­is að stjórn­völd hefðu skipu­lega verið blekkt í aðdrag­anda og kjöl­far söl­unn­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert