„Svolítið hissa“ á dómi Landsréttar

Helgi Magnús Gunnarsson aðstoðarríkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson aðstoðarríkissaksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðstoðarríkissaksóknari, Helgi Magnús Gunnarsson, segist hissa á niðurstöðu Landsréttar, sem ákvað síðdegis í dag að snúa við 16 ára fangelsisdómi yfir Arturas Leimontas fyrir manndráp. Helgi segir að óvíst sé hvort reynt verði að áfrýja málinu, þar sem það tekst sjaldan þegar um sönnunargildi af munnlegum vitnisburði er um að ræða.

Arturas var gefið að sök að hafa 9. desember 2019 veist með of­beldi að Eg­idijus Buz­leis, samlanda sínum, og hent honum fram af svölum í íbúð á þriðju hæð í Úlfarsárdal. 

Ákæruvaldið fór fram á að dómur héraðsdóms yrði staðfestur. Svo fór að Arturas var sýknaður eins og fyrr segir. 

„Ég er nú svolítið hissa á þessari niðurstöðu,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.

„Ég taldi nú sönnunargögnin nægja, eins og héraðsdómur taldi þau nægja.“

Frá vettvangi.
Frá vettvangi. mbl.is/Alexander Gunnar

Herstökk sem réð úrslitum

Meðal þess sem Landsréttur segir að hafi gert að verkum að ekki væri hægt að hefja sekt Arturas yfir allan vafa, var sá framburður hans að Eg­idijus hefði reynt að stökkva fram af svölunum sem Arturas á að hafa hrint honum fram af.

Með því væri Egidijus að reyna að framkvæma stökk sem þeir höfðu báðir lært í sovéska hernum, en þeir eru báðir upprunnir frá Litháen. 

„Það er alveg ljóst að ef hann var að reyna að stökkva þarna fram af, einn og í gamni sínu, eins og hann hafði lært í sovéska hernum þrjátíu árum áður, þá skýrir það ekki þessar deilur milli hans og ákærða. Eins það að hann hafi verið með áverka sem höfðu komið til fyrr um daginn, fyrir stökkið. Er það bara einhver tilviljun?

Svo er það þessi skýring ákærða að hann hafi verið að gera eitthvert hermannastökk sem hann hafði lært þrjátíu árum áður, þetta var 57 ára gamall maður, bara einn úti á svölum, það er enginn að horfa á hann og enginn sem getur þá séð það sem hann ætlaði að sýna fram á að hann gæti gert.

Óútskýrðir áverkar

Auk þess að finna að þessu segir Helgi að Egidijus hafi hlotið áverka fyrr um daginn sem ekki var hægt að útskýra með fallinu.

„Það var þarna vitni sem lýsti átökum á milli þeirra áður en þeir fóru út á þessar svalir sem um ræðir og mér fannst tímasetningar passa við það sem fram hafði komið og mér fannst vitnisburður þess vitnis trúverðugur. 

Svo var hann [Egidijus] samkvæmt réttarmeinafræðilegum skýrslum með áverka sem ekki var hægt að skýra með fallinu, eins og hann hafi orðið fyrir höggum eða spörkum áður en hann féll, þannig að ég veit ekki hvernig þeir afgreiddu það í dóminum,“ segir Helgi, sem kveðst ekki enn hafa lesið dóminn til fulls. 

Málinu líklega ekki áfrýjað

Eins og fyrr segir telur Helgi ekki líklegt að málið verði tekið fyrir af Hæstarétti. Það segir hann vera vegna þess að áfrýjunarleyfi fáist sjaldan í málum sem þessum, þar sem sönnunargildi munnlegs framburðar er að heilsa.

„Það eru mjög takmarkaðar líkur á áfrýjun. Það þarf að fá áfrýjunarleyfi í fyrsta lagi og Hæstiréttur heimilar aldrei áfrýjun ef niðurstaðan byggir á mati munnlegs framburðar, eins og þetta gerir að hluta til.

Og svo eru þarna verkfræðingur og réttarmeinafræðingur í dómnum sem eru að meta sérfræðiálit ýmissa verkfræðinga og réttarmeinafræðinga sem Hæstiréttur býr ekkert yfir. Þannig að ég er mjög á móti líkunum á að Hæstiréttur fallist á þetta, en það hefur í sjálfu sér ekkert verið tekin nein ákvörðun um þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert