Stjórn Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FÍFK) gagnrýnir skýrslu Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sem unnin var af Haraldi Briem, fyrrum sóttvarnalækni, um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini.
Meðal þess sem er gagnrýnt er að skýrslan taki nær eingöngu mið af frásögn framkvæmdaraðila leghálsskimana, en ekki notenda kerfisins við þær skimanir, eða þeirra skjólstæðinga sem sækja þjónustuna.
Þetta kemur fram í opnu bréfi FÍFK til heilbrigðisráðherra.
„Í heimildaskrá skýrslunnar eru einungis heimildir frá aðilum sem bera ábyrgð á núverandi starfsemi. Skýrslan ber þess merki að ekki hafi farið fram skoðun á hvort upplýsingarnar séu réttar eða rætt við notendur ferilsins,“ segir meðal annars í bréfinu.
Þá segir einnig að skýrslan taki ekki afstöðu til bréfa frá fagfélögum rannsóknarlækna og kvensjúkdómalækna, sem send voru heilbrigðisráðherra vegna vinnslu skýrslunnar.
Í bréfi FÍFK segir einnig að ekki sé rétt kveðið á um í skýrslunni hver svartími framkvæmdaraðila leghálsskimana sé til skimunaraðila. Félagið segist hafa fylgst með hvenær rannsóknarsvör berast til félagsmanna og að gert sé ráð fyrir því að svartími sé ekki lengri en 2-3 mánuðir.
Við skoðun FÍFK kom þó í ljós að svartíminn er lengri en það, hið minnsta þrír og hálfur mánuður í einhverjum tilfellum.
Þá gerir félagið einnig athugasemd við að skýrsluhöfundur, fyrrnefndur Haraldur Briem, nefni ekki að aldrei hafi verið gert áhættu- og öryggismat á þeim breytingum sem innleiða átti á skimunum fyrir leghálskrabbameini.
Þar að auki er það gagnrýnt að skýrsluhöfundur skuli ekki gera athugasemd við að beiðni sýnatökuaðila, sem fært sé inn í íslenskan gagnagrunn, skuli ekki notað.
„Sérstaklega er athugavert að skýrsluhöfundur gerir ekki athugasemd við að beiðni sýnatökuaðila sem sett er inn í íslenskan gagnagrunn skuli ekki vera notuð heldur að beiðnin sem sett er inn í danska gagnagrunninn sé skrifuð af öðrum aðila og fer eftir hvaða númer er á plastpokanum sem sýnaglasið liggur í. Veikasti hlekkur kerfis er yfirfærsla upplýsinga og er ljóst að hér er verið að auka áhættu á mistökum í núverandi kerfi. Það að handvirkt breyta íslenskri kennitölu yfir í danska og aftur til baka þegar svar er fært inn í íslenskt kerfi er stór öryggisógn.“