Suðurstrandarvegur getur lokast

Horft inn Nátthagadal sem nú er orðinn nánast fullur af …
Horft inn Nátthagadal sem nú er orðinn nánast fullur af hrauni. mbl.is/Sigurður Bogi

Viðbrögð við mögulegri lokun Suðurstrandarvegar vegna hraunstreymis voru rædd á fundi Grindavíkurbæjar, björgunarsveita, lögreglunnar, Veðurstofu o.fl. í gærmorgun. Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, sagði að staðan sé metin frá degi til dags.

„Það er verið að kortleggja áhrif á bílaumferð og umferð gangandi fólks ef Suðurstrandarvegur lokast,“ sagði Fannar. „Vegurinn er mikilvægur vegna þungaflutninga og einnig sem tenging Reykjanesskagans við Suðurland. Þá er þetta ein af þremur akstursleiðum til og frá Grindavík. Það verður mjög bagalegt ef við missum Suðurstrandarveginn.“ Fannar sagði að lokist vegurinn þurfi að huga að nýjum bílastæðum fyrir gosgesti vestur af Nátthagakrika.

Hugmyndir voru um að reisa varnargarð gegn hraunrennsli á milli hæðarinnar Slögu, framan við Nátthaga, og Borgarfjalls.

„Það var ekki talið gerlegt að ráðast í þær framkvæmdir. Þær fólust í því að reisa varnargarð vestan við Slögu og jafnframt að grafa geil í eystra skarðinu fyrir hraunstrauminn. Vísindamenn voru ekki vissir um að þessi hraunrás myndi virka. Ef hún stíflaðist myndi hraunið hlaðast upp í Nátthaga og fara svo fram um vestara skarðið. Auk þess hefði þessi framkvæmd kostað einhver hundruð milljóna og tekið nokkrar vikur. Einnig þyrfti að gera leiðigarða til að leiða hraunið áfram út á gömul hraun þarna fyrir sunnan í áttina til sjávar. Sú framkvæmd hefði líka verið kostnaðarsöm. Að öllu samanlögðu þótti ekki verjandi að fara í þessar framkvæmdir.“ Framan við Nátthaga er jörðin Ísólfsskáli og haldi gosið áfram getur hraunið mögulega farið þar yfir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka