Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kveðst aðspurður hafa haft tíma til að fylgjast með Evrópumótinu í knattspyrnu undanfarna daga, samhliða störfum sínum í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn.
Hann segist ekki brjóta hefðir og venjur, og heldur með Englendingum í ár, sem hann segist bera sterkar taugar til.
„Já, já, ég hef náð því,“ segir Þórólfur spurður hvort hann hafi náð að fylgjast eitthvað með mótinu.
„Þetta er bara mjög jöfn keppni og mörg spennandi lið,“ segir hann svo og má merkja ákveðið embættismannalegt afstöðuleysi í röddu hans.
Þórólfur segir þó léttur að hann haldi vissulega með Englandi en svo virðist sem hann hafi ekkert sérstaklega mikla trú á sínum mönnum.
„Maður ber alltaf ákveðnar taugar til Englendinga, þó að þeir sýni aldrei neitt á svona mótum og nái aldrei að klára málin.“
Svo segir Þórólfur að hann haldi upp á danska liðið og lætur fleyg orð falla:
„Hjartað slær auðvitað með Dönum, þetta hefur auðvitað verið tilfinningaþrungin leið fyrir þá. Þannig að ég vona að þeim gangi vel.“
Hjarta Christians Eriksens, besta liðsmanns Danmerkur, stöðvaðist undir lok fyrri hálfleiks í fyrsta leik þeirra á mótinu, eins og fór vart framhjá nokkrum fótboltaáhugamanninum. Þar öttu Danir kappi við Finna og lutu í lægra haldi 1:0 þegar leiknum var áfram haldið eftir að langt hlé hafði verið gert.
„Svo eru náttúrlega bara frábær lið þarna eins og Frakkar og Portúgalar, Ítalir, Belgar. Ég meina þetta verður bara gríðarlega spennandi,“ segir Þórólfur.