Lætur kynþáttaníð ekki brjóta sig niður

Liðsfélagar Bukayo Saka hughreista hann eftir vítið á Wembley.
Liðsfélagar Bukayo Saka hughreista hann eftir vítið á Wembley. AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Bukayo Saka sendi frá sér yfirlýsingu í dag og tjáði sig þar með í fyrsta skipti frá því honum mistókst að skora úr vítaspyrnu sem réð úrslitum í úrslitaleik Englands og Ítalíu á EM á Wembley síðasta sunnudag.

Í kjölfar leiksins varð Saka fyrir grófu kynþáttaníði á samfélagsmiðlum, líkt og Marcus Rashford og Jadon Sancho en þeim mistókst einnig að skora úr sínum spyrnum.

„Ég hef verið fjarri samfélagsmiðlum síðustu daga til að vera með fjölskyldunni og átta mig á síðustu vikum. Ég get ekki útskýrt með þessu bréfi hversu þakklátur ég er fyrir alla ástina og kærleikann sem ég hef fengið,“ byrjaði Saka á að skrifa og ritar síðan um stoltið sem fylgir því að klæðast ensku treyjunni.

„Ég get ekki útskýrt með orðum hversu vonsvikinn ég var með úrslitin og vítið mitt. Ég trúði því virkilega að við gætum unnið þennan leik og það er leiðinlegt að það gekk ekki eftir. Ég lofa að ég mun gera allt sem ég get til að þessi kynslóð leikmanna kynnist því að vinna.“

Saka brast í grát eftir vítið sitt og var niðurbrotinn. Þrátt fyrir það og kynþáttaníðið sem fylgdi í kjölfarið ætlar strákurinn ungi að halda sínu striki.

„Viðbrögð mín í lok leiks sögðu allt sem segja þarf. Þetta var ótrúlega sárt og mér leið eins og ég hefði brugðist öllum. Ég get lofað ykkur einu. Ég læt þetta augnablik og neikvæðnina sem fylgdi ekki brjóta mig niður.

Það er enginn staður fyrir rasisma eða nokkurs konar hatur í fótbolta né samfélaginu í heild. Við getum útskúfað hatrinu og unnið saman. Ástin vinnur alltaf,“ skrifaði Saka m.a. Yfirlýsinguna má sjá í heild sinni á Twitter-síðu Saka hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert