Ljóst að gosinu er ekki lokið

Mynd Andra sýnir að enn var líf í gígnum eftir …
Mynd Andra sýnir að enn var líf í gígnum eftir að gosóróinn féll. Ljósmynd/Andri Thor Birgisson

Mynd sem tekin var klukkan 20.23 í gærkvöldi sýnir að enn var líf í gígnum eftir að gosóróinn féll. Því er ljóst að gosinu er ekki lokið, að því er fram kemur í Facebook-færslu eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands. „Gusugangurinn“ hefur þó stöðvast í bili.

„Greinileg hrauntjörn mallar í gígnum undir þunnri hraunskel. Uppstreymi virðist í norðanverðum gígnum,“ segir í umræddri færslu. 

Þar kemur fram að enn sé mikil þoka á svæðinu og því hafi varla sést til gígsins síðan um kvöldmatarleytið í gær. 

Ýmsir, til að mynda Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, veltu því upp á samfélagsmiðlum í gær hvort gosinu væri að ljúka. Það virðist nú ekki vera staðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka