„Þetta er bara dálítið sérstakt, við erum ekki komin með neinn botn í málið,“ segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við mbl.is.
Til umræðu eru drunurnar sem virðast hafa heyrst víða á Suður- og Suðvesturlandi seint í kvöld.
„Þetta veldur mér pínulitlu hugarangri, það er óþægileg staða að vera hérna á vaktinni og hafa engin svör,“ segir Sigurdís.
„Ég er í rauninni bara að renna yfir öll mín mælitæki reglulega og oft í nótt. Og það er það eina sem ég get gert.“
Fjöldi tilkynninga hefur borist mbl.is frá fólki sem heyrði drunurnar og segir Sigurdís að gripið hafi verið til þess ráðs að biðja lögregluna á Suðurlandi að svipast um, til að athuga hvort hún sæi nokkuð.
Veðurstofunni hafa einnig borist nokkrar tilkynningar.
„Við erum búin að fá þrjár tilkynningar, en þetta eru tilkynningar um drunur og ekki beint skjálfta. Fólk talar um högg á húsin en ekki beint titring. Þungt högg en ekki skjálfta og titring.“
Hún veltir því fyrir sér hvort hljóðmúrinn hafi verið rofinn yfir landinu og hvort loftið í kvöld hafi borið hljóð betur en venjulega.
„Við erum búin að vera að renna í gegnum myndavélar Vegagerðarinnar og það er ekkert á okkar mælum. Við erum í raun bara að bíða eftir því að einhver sjái eitthvað.“
Ef skjálftar taki að mælast verði gripið til viðeigandi ráðstafana.
„Við erum búin að tala við almannavarnir og þær hafa heyrt í lögreglunni og svo framvegis.“
Hefur nokkuð annað eins átt sér stað áður? Að fólk tilkynni eitthvað á borð við þetta en að ekkert mælist?
„Ekki svona mikið, nei. Ég hef alveg fengið tilkynningar um drunur en þá er yfirleitt hægt að finna skýringu á því, skjálfti eða skriða eða eitthvað slíkt.“
Uppfært: