Lesendur mbl.is hafa í dag sent fréttastofu mikinn fjölda frásagna af drunum sem fundust víða á Suður- og Suðvesturlandi seint í gærkvöldi og er ljóst að mörgum hefur brugðið og forvitni annarra hefur vaknað. Margir fengu á tilfinninguna að um sprengingu væri að ræða eða drunur á undan jarðskjálfta. Ekki er útlit fyrir að svo hafi verið.
„Þær stóðu yfir í stuttan tíma eins og jarðskjálftadrunur,“ segir Margrét Guðrún Jónsdóttir sem stödd var rétt hjá Skálholti þegar hún varð vör við drunurnar.
Ágúst Pálsson var staddur við Vörðufell, nærri Selfossi, þegar drunurnar heyrðust og fundu margir fyrir þeim þar.
Sunna Lind var ásamt fjölskyldu sinni í búsað að hlusta á fuglasönginn þegar hún heyrði háværa drunu. „[Ég] sá ekkert á himninum, fuglarnir þögðu eftir hljóðið í a.m.k. 30 sekúndur,“ segir Sunna.
Már Guðnason, sem staddur var á Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð, heyrði í drununum og lýsir þeim sem hvelli, eins og eitthvað stórt hefði dottið.
Ragnheiður Blöndal, sem búsett er á Selfossi, heyrði líka í drununum. „Okkur fannst þetta hljóma eins og sprenging og síðan kom örlítill „hristingur“ í kjölfarið,“ segir Ragnheiður.
Embla Rún Björnsdóttir var stödd í Seljahverfinu í Breiðholti og hélt að drunurnar væru einhvers konar þrumur.
Hrafnkell Karlsson var á göngustígnum hjá Ástjörn í Hafnarfirði þegar hann heyrði í drununum.
„Ég hélt fyrst að það væri bílslys í hverfinu fyrir ofan mig en sá svo ekkert. Tók eftir að það var svanur á göngustígnum sem lyfti upp höfðinu í forvitni. Ég var einn þannig að ég gat ekki talað við annan um drunurnar. Ég var með heyrnartól að hlusta á klassíska tónlist en þrátt fyrir það heyrði ég skýrt þessar drunur,“ segir Hrafnkell.
Anna Helgadóttir heyrði í drununum við Þingvallavatn. Hún segir að þær hafi hljómað eins og einhvers konar sprenging norðan við vatnið.
Rebekka Guðmundsdóttir, íbúi í syðstu byggð Selfoss, heyrði í drununum rétt fyrir klukkan 11 í gærkvöldi.
„Ég hélt að eitthvað hefði hrunið eða væri undanfari jarðskjálfta en svo gerðist ekkert. Ég lá með syni mínum sem var að sofna, hann hrökk upp og spurði hvað þetta hefði verið. Við erum syðst í byggðinni á Selfossi.“