Ákveðinn endahnútur í að Sundabraut verði að veruleika

Dagur B. Eggertsson og Sigurður Ingi Jóhannsson undirrituðu yfirlýsinguna í …
Dagur B. Eggertsson og Sigurður Ingi Jóhannsson undirrituðu yfirlýsinguna í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er stór samgöngudagur,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í samtali við mbl.is en hann og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, undirrituðu í dag yfirlýsingu um lagningu Sundabrautar. 

„Þetta er ákveðinn endahnútur á að þetta verði að veruleika,“ segir Sigurður Ingi og nefnir að ráðuneyti hans hafi unnið hörðum höndum allt kjörtímabilið við að koma Sundabraut á dagskrá. 

Staðfestir sameiginlega sýn

„Þessi viljayfirlýsing okkar borgarstjórans í dag staðfestir sameiginlega sýn, að nú sé komin fram þessi leið, valkostir sem eru uppi og hvaða verkefni eru næst,“ segir Sigurður Ingi, en næsta skref samkvæmt yfirlýsingunni er að gera félagshagfræðilega greiningu á þverun Kleppsvíkur en að henni lokinni verði hafist handa við að undirbúa breytingar á aðalskipulagi borgarinnar, sem feli í sér endanlegt leiðarval Sundabrautar.

Sigurður Ingi nefnir einnig að eftir sé að leggjast í umhverfismat og samtal við íbúa og aðra hagaðila. „Breytingar á skipulagi, áframhaldandi hönnun, undirbúningur o.s.frv., suma þætti er hægt að vinna samhliða hver öðrum. Þetta mun síðan að lokum leiða til útboðs,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að þessi vinna muni taka um fjögur til fimm ár. Umhverfismatið eitt og sér muni taka tvö til þrjú ár. 

Tekin í notkun árið 2031

„Það er mikil vinna framundan þó að grafan birtist kannski ekki fyrr en árið 2026,“ segir Sigurður Ingi, en stefnt er að því framkvæmdir við Sundabraut hefjist árið 2026 og að brautin verði tekin í notkun árið 2031.

Sigurður Ingi segir að Sundabraut muni gjörbreyta umferðarmynstri höfuðborgarinnar. „Þetta er miklu betri tenging milli borgarhluta og myndar öryggisleið út úr borginni. Þetta mun einnig tengja Vesturland mun betur við höfuðborgina,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að Sundabraut muni einnig hafa mikil áhrif á umferðarflæði.

„Þetta mun létta mikið á umferð í gegnum Mosfellsbæ og Ártúnsbrekku, en hefur einnig jákvæð áhrif á öllu höfuðborgarsvæðinu, sem er ánægjulegt.“

Sigurður Ingi gerir ráð fyrir að frekar verði lagst í gerð Sunda­brúar heldur en jarðgöng fyr­ir legu Sunda­braut­ar. Samkvæmt skýrslu starfs­hóps á veg­um Vega­gerðar­inn­ar, sem kom út í febrúar, er áætlaður heildarkostnaður við Sundabraut frá Sæbraut að Kjalarnesi, ef gerð verður Sundabrú, um 69 milljarðar. 

Sundabrú á aðalskipulagi. Rauðu og svörtu punktalínurnar væru göngu- og …
Sundabrú á aðalskipulagi. Rauðu og svörtu punktalínurnar væru göngu- og hjólaleiðir sem myndu tengjast brúarsamgöngunum, en hvíta og svarta línan er Sundabraut. Kort/Aðalskipulag Reykjavíkur

Fjármögnuð með veggjöldum

Sundabraut verður fjármögnuð með veggjöldum og ekki er gert ráð fyrir fjármögnun framkvæmdarinnar úr ríkissjóði. Sundabraut er meðal sex samgöngumannvirkja sem falla undir lög um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir sem heimila samvinnu við einkaaðila um fjármögnun, hönnun, undirbúning og framkvæmdir ásamt viðhaldi og rekstri í tiltekinn tíma. Gjaldtaka skal þó ekki hefjast fyrr en framkvæmdum lýkur og stendur að hámarki í 30 ár.

Sigurður Ingi segir þessa leið vera svipaða þeim sem farin var með gerð Hvalfjarðarganga. „Verkefnið verður alfarið greitt þegar það er búið með notendagjöldum. Hámark veggjalda verða 30 ár.“

Verkefnið komið í traustan farveg

Einnig var létt yfir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra er mbl.is náði tali á honum. „Ég fagna þessari yfirlýsingu og með þessu eru málefni Sundabrautar komin í traustan farveg. Það sem við erum að tryggja með þessari yfirlýsingu er að það verði vandað til verka og haft samráð við þá sem þetta snertir mest, íbúa beggja vegna vogsins, hafnirnar og aðra hagsmunaðila,“ segir Dagur.

Hann leggur áherslu á að gert verði ítarlegt og gott umhverfismat þar sem allir áhrifaþættir verða greindir. 

Dagur segir að yfirlýsingin í dag sé ákveðin staðfesting á að Sundabraut verði að veruleika með þeim fyrirvara að umhverfismatið og samráðið sé eftir. „Við þurfum auðvitað að virða þá ferla þannig að það verði traustur grunnur fyrir leiðarvali, hvort að um verði göng eða brú að ræða.

Rétt útfærð getur Sundabraut orðið samgöngubót og dreift umferðinni betur. Hún getur opnað nýjar leiðir bæði fyrir þá sem keyra og almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi,“ segir Dagur og bætir við að í sumum útfærslum geti brautin beint mikilli umferð inn í viðkvæm íbúahverfi. 

„Það sem þarf að gera núna er að fara yfir þau mál líka og tryggja að áhrifin af Sundabraut hafi ekki neikvæðar afleiðingar fyrir viðkvæma hópa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert